Tillögur stjórnlagaráðs ekki greyptar í stein

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins var gestur Silfursins á RÚV í …
Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins var gestur Silfursins á RÚV í hádeginu. Skjáskot/RÚV

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, segist ekki líta svo á að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá séu greyptar í stein og að ekki megi víkja einu orði frá þeim við setningu nýrrar stjórnarskrár. Hins vegar þurfi að leggja þær til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár. Katrín var gestur Silfursins á RÚV í dag ásamt Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni.

„Við verðum að horfast í augu við það að ef hægt er að bæta þessa stjórnarskrá [þ.e. tillögur stjórnlagaráðs] þá viljum við gera það. Það er ekkert sem er greypt í stein og öll mannanna verk eru á einhvern hátt ófullkomin,“ sagði Katrín.

Benti hún á að þegar hefðu verið gerðar minniháttar breytingar í fórum Alþingis árið 2013, til að mynda eftir athugasemdir frá Fenyjanefndinni, nefnd Evrópuráðsins sem er ríkjum til ráðgjafar um breytingar á stjórnarskrám.

„En við vorum enn með skjal sem grundvallaðist á tillögum stjórnlagaráðs,“ sagði Katrín. Það væri ekki raunin í þeim breytingartillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um breytingar á stjórnarskránni. Telur hún réttast að hefjast handa þar sem frá var horfið vorið 2013.

Spyr hvenær stjórnarskráin hafi ekki gagnast þjóðinni

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður er á öndverðum meiði. Hann velti því upp hver þörfin væri á allsherjarbreytingu á stjórnarskrá. „Það má byrja að spyrja að því: Hefur stjórnarskráin á einhverjum tímapunkti ekki gagnast þjóðinni?“ spurði Sigurður og svaraði svo spurningunni neitandi.

Telur hann að krafan um nýja stjórnarskrá, sem náði fótfestu í umræðunni eftir bankahrunið 2008, sé fyrst og fremst krafa um annars konar samfélagsgerð. „Það er sú krafa sem er enn í gangi, en þá er hægt að spyrja hvar það viðkemur stjórnarskránni,“ sagði Sigurður og nefndi ýmsar hugsanlegar breytingar sem fólki kynni að hugnast: breytingar á hlutverki forseta, skýrari valdmörk hans, styrkingu dómskerfisins, auðlindaákvæði og fleira.

Sigurður sagði betra að fara hægar í sakirnar er gerðar væru breytingar á stjórnarskrá og varast að gera lögin óskýr, svo sem með því að setja inn ákvæði sem engin þörf væri á þar sem þegar væri staðinn vörður um þau í almennri löggjöf.

Nefndi hann sem dæmi grein frumvarpsins um dýravernd og greinar um vernd gegn ofbeldi, sem hvort tveggja er þegar kveðið á um í almennum lögum. „Það er stundum erfitt að átta sig á því þegar þú lest [tillögur stjórnlagaráðs] ... á ofbeldisákvæðið við eða pyntingarákvæðið eða kannski ákvæðið um tryggð til að lifa með reisn?“ sagði Sigurður. „Þetta eru allt falleg og góð markmið en ég er ekki endilega viss um að stjórnarskráin tryggi það neitt betur en almenn lög.“

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. Skjáskot/RÚV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert