Vitundarvíkkandi lausnir?

Geðlæknirinn Robin Carhart-Harris hefur mikla trú á vitundarvíkkandi meðferð þar …
Geðlæknirinn Robin Carhart-Harris hefur mikla trú á vitundarvíkkandi meðferð þar sem lyfið psilocybin er notað við geðröskunum. Hann telur að slík meðferð gæti í framtíðinni gagnast öllu fólki og jafnvel gert það opnara og hamingjusamara. Ljósmynd/Centre for Psychedelic Research, Imperial College London

Læknirinn Robin Carhart-Harris er forstöðumaður rannsóknarseturs um vitundarvíkkandi efni hjá Imperial College í London.  Hann fékk snemma á ferli sínum áhuga á vitundarvíkkandi lyfjum í lækningaskyni. Hann skoðaði myndir af heilum fólks sem þjáist af þunglyndi sem tekið hafði lyfið psilocybin, virka efnið í töfrasveppum, og sá að virknin í heilanum var svipuð og eftir neyslu þunglyndislyfja eða annarra hefðbundinna lækningaleiða.

„Þetta átti líka við um fólk sem ekki var þunglynt og varð það til þess að ég vildi skoða þessi mál betur. En áhuginn kviknaði ekki eingöngu við myndirnar, heldur einnig vegna þeirrar líðanar sem fólk sem lyfið tók lýsti. Fólk sagði gjarnan að sér liði eins og þungu fargi væri af því létt; það fann vellíðan sem það hafði ekki fundið áður. Þetta er því ekkert nýtt; efnið úr plöntum eins og ayahuasca hefur verið notað í aldir. Ég sá fljótt margar óbeinar sannanir sem gáfu til kynna að vitundarvíkkandi lyf gætu virkað vel á þunglyndi.“ 

Það breytist eitthvað

„Í gegnum vinnu okkar höfum við meðhöndlað fimmtíu manns með þunglyndi með psilocybin. Á heimsvísu eru þetta líklega um þúsund manns. Það sem við höfum séð er að 70% fólks bregðast vel við þessari meðferð og ef það er borið saman við meðferð með hefðbundnum geðlyfjum er það betra hlutfall, því geðlyf virka aðeins í helmingi tilvika. Okkur finnst við vera með eitthvað nýtt og betra í höndunum,“ segir hann.

Carhart-Harris segir lítið mál að finna fólk sem er til í að prófa lyfið psilocybin við þunglyndi.
„Fleiri vilja komast að en við getum tekið á móti. Ég fæ margar fyrirspurnir frá fólki sem vill koma í meðferð til okkar.“

Varðandi langtímavirkni á lyfinu skoðaði Carhart-Harris sjúklinga sína tólf mánuðum eftir meðferð og svo nokkrum árum síðar.

„Áhrifin fyrirfundust enn. Við þurfum auðvitað að vera raunsæ; þunglyndi er í eðli sínu þannig að fólki getur batnað og versnað. En við skoðuðum fólk sem hafði þjáðst af þunglyndi öll sín fullorðinsár og sáum að fjórum árum eftir meðferð hjá okkur leið því enn vel,“ segir hann og segir að meðferðin virki þannig að fólk fái einn heilan skammt af efninu á einum degi, og mögulega minni skammt einu sinni eða tvisvar í viðbót.

Þannig að eitthvað í heilanum breytist, jafnvel til frambúðar?

„Já. Í raun. Ef þú þjáist af þunglyndi starfar heilinn á þér ekki eins og hann á að gera. Með vitundarvíkkandi lyfjum breytist eitthvað í heilanum.“

Mjög tilfinningaleg reynsla

Carhart-Harris lýsir meðferðinni og segir þau velja vandlega hverjir henta í hana.
„Fyrst er fólk undirbúið og þegar kemur að lyfjagjöfinni eru tveir inni í herberginu hjá sjúklingnum; oft geðlæknar. Svo er fylgst með þeim símleiðis næstu daga,“ segir Carhart-Harris.

Hvað upplifir fólk sem fær lyfið hjá þér?

 „Það lýsir því gjarnan að það finni í upphafi sérkennilega tilfinningu í líkamanum, eins og fiðring. Fólk sér oft myndir í huga sér, en í meðferðinni er það með lokuð augu. Fólk liggur eða situr afslappað og það gæti farið að sjá hluti, eins og form, liti og mynstur. Eftir því sem líður á meðferðina verða sýnirnar meira lifandi. Fólk sér stundum flóknar myndir; jafnvel annað fólk eða endurlifir gamlar minningar, tilfinningar eða sambönd við annað fólk. Þetta er mjög tilfinningaleg reynsla og fólk getur orðið mjög tilfinninganæmt við það að hlusta á tónlist. Fólk grætur oft. Það sér og skynjar gjarnan líf sitt á nýjan hátt og upplifir á annan hátt heiminn og gjörðir sínar,“ segir hann og segir líkamlegu einkennin oft minni en þau sálrænu.

„Fólk sér og skynjar gjarnan líf sitt á nýjan hátt …
„Fólk sér og skynjar gjarnan líf sitt á nýjan hátt og upplifir á annan hátt heiminn og gjörðir sínar,“ segir Robin Carhart-Harris um meðferðina. Ljósmynd/Centre for Psychedelic Research, Imperial College London

Fólk verður opnara

Þú nefnir að þið hafið reynt lyfið psilocybin einnig á fólki sem ekki þjáist af þunglyndi. Hvað kom út úr þeim tilraunum?

„Já, við höfum reynt það á heilbrigðum sjálfboðaliðum. Það er mjög athyglisvert að sjá jákvæða útkomu hjá þessum hópi líka varðandi geðheilsu. Við skoðum ýmsa þætti eins og sálræna vellíðan og hvernig fólki gengur í vinnu eða í félagslegum aðstæðum. Við spyrjum um tilgang þess í lífinu og sjáum að lyfið hefur jákvæð áhrif og er því ekki bundið því að hjálpa einungis fólki með geðsjúkdóma.“

Þú lýsir í grein að fólk virðist opnara og frjálslyndara eftir inntöku lyfsins. Má þá segja að það valdi einhvers konar persónuleikabreytingu?

„Já, að einhverju leyti mætti segja það. Oft lendir fólk á lífsleiðinni á vegg eða staðnar. Með notkun vitundarvíkkandi lyfja opnast hugurinn og veggir falla og hægt er að skoða hluti án hamla. Fólk verður mun opnara, forvitnara og sýnir jafnvel minni dómhörku. Það er sú breyting sem við sjáum.“

Hamingjurík framtíð?

Heldur þú að vitundarvíkkandi lyf gætu verið lykillinn að lækningu við þunglyndi í framtíðinni?

„Það gæti verið mjög gagnlegur valmöguleiki en ég held ekki að það verði lækning, heldur frekar góð viðbót við annað sem hægt er að bjóða sjúklingum,“ segir hann og segist ekki vita hvenær lyfið verði komið á markað.

„Það er erfitt að spá, mögulega innan fimm ára. Ég held að það verði áhugi í samfélaginu og vaxandi eftirspurn. Ég hugsa að margir myndu vilja lyfið fram yfir til dæmis lyfið prozac. En líklega verður þetta í fyrstu aðeins í boði í einkageiranum. Ég hugsa að það verði opnaðar læknastofur með leyfi fyrir lyfinu, sem myndu þá bjóða upp á alhliða vitundarvíkkandi meðferð.“

Þú sagðir að þú teldir lyfið geta gagnast öllum, einnig þeim sem ekki þjást af geðsjúkdómum. Heldurðu að eftir hálfa öld verðum við öll farin að taka psilocybin til að verða hamingjusamari og opnari?

 „Já, það er mögulegt. Þetta gæti verið svolítið eins og jóga eða hugleiðsla. Ef fordómar í garð vitundarvíkkandi lyfja minnka og verða hluti af menningunni gæti það gerst. Ég er ekki svo barnalegur að halda að það gerist án vandkvæða; það verða alls kyns hindrandir og erfiðleikar. Fólk mun misnota lyfið og það verður erfitt að koma því á markað. En ég held að niðurstöður rannsókna sýni fram á ágæti meðferða með vitundarvíkkandi lyfjum. Og vonandi kemst það til skila hjá almenningi að þetta er meðferð; þetta snýst ekki bara um að taka vitundarvíkkandi lyf. Ég tel að margt fólk muni finna að meðferðin getur haft góð áhrif á sálarþroska þess.“ 

Robin Carhart-Harris telur að innan fimm ára verði farið að …
Robin Carhart-Harris telur að innan fimm ára verði farið að nota vitundarvíkkandi lyf við þunglyndi. Ljósmynd/Centre for Psychedelic Research, Imperial College London

Ítarlegt viðtal við Robin Carhart-Harris er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »