42 innanlandssmit - 19 bíða mótefnamælingar

Alls voru 42 ný kórónuveirusmit greind innanlands í gær. Af þeim voru 74% í sóttkví en 11 voru utan sóttkvíar. Nítján bíða nú niðurstöðu mótefnamælingar eftir að hafa greinst með smit á landamærunum. Alls greindust þrjú virk smit í seinni landamæraskimun í gær. 27 eru á sjúkrahúsi og af þeim eru þrír á gjörgæsludeild Landspítalans. 

Alls eru 1.234 í einangrun sem er fækkun um sex frá því í gær er þeir voru 1240. Í sóttkví eru 2.878 en voru 2.780 í gær.

Nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur er farið að lækka að nýju og er nú 287,7. Á landamærunum er nýgengið 15,8. 

Tekin voru 823 sýni í gær og 527 voru tekin við landamæraskimun eitt og tvö. 

Flest smit eru í aldurshópnum 18-29 ára eða 365 talsins. Næstflest á aldrinum 30-39 ára eða 210 og 156 einstaklingar á fimmtugsaldri eru með staðfest Covid-19-smit núna. Á aldrinum 50-59 ára eru smitin 142 talsins og 89 á aldrinum 60-60 ára. 57 smit eru meðal fólks sem er komið yfir sjötugt.

Börn yngri en eins árs sem eru í einangrun vegna Covid-19 eru átta talsins, 35 börn á aldrinum 1-5 ára og 100 börn á aldrinum 6-12 ára. Alls eru því 143 börn yngri en 13 ára með Covid-19-smit. Á aldrinum 13-17 ára eru 72 smit. 

Á höfuðborg­ar­svæðinu eru 1.075 í ein­angr­un og 2.341 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra er ekkert smit og enginn í sóttkví. Á Austurlandi er enginn í einangrun, þar eru fjórir í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 54 smitaðir og 261 í sóttkví. Á Suður­landi eru 50 í einangrun og 51 í sóttkví.

Á Norðurlandi eystra eru 26 í einangrun og 168 í sóttkví. Á Vestfjörðum eru sex í einangrun og einn í sóttkví. Á Vesturlandi eru 16 smitaðir og 17 í sóttkví. Óstaðsettir í hús eru sjö smitaðir og 35 í sóttkví. 


 

mbl.is