Bjóst við fleiri innlögnum

Ljósmynd/Landspítalinn

Staðan á Landspítala, með tilliti til Covid-19-innlagna, er „þokkaleg“ að sögn yfirlæknis sem bjóst við því að meira yrði um innlagnir í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins hérlendis. Hann segir að hertar aðgerðir í samfélaginu vegna útbreiðslu smita hafi tvímælalaust skilað árangri. 

26 eru nú inniliggjandi á Landspítala með Covid-19 og einn að auki sem er að jafna sig eftir Covid-19-veikindi en sá er ekki lengur smitandi. Þrír eru á gjörgæslu og þar af einn á öndunarvél. 1.040 fullorðnir eru í eftirliti Covid-19-göngudeildar Landspítala og nærri 200 börn. 

„Mér sýnist þetta vera í jafnvægi enn sem komið er. Það hafa verið 5 innskriftir og 4 útskriftir frá föstudegi til mánudags,“ segir Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­ala í samtali við mbl.is.

Gerið þið ráð fyrir því að mesta álagið sé yfirstaðið í þessari bylgju?

„Ég er farinn að krossa fingur. Þetta eru kannski ekki jafn margar innlagnir og maður bjóst við, ég hafði einhvern veginn vænt þess að það myndi verða meira um innlagnir en raun ber vitni, hvað sem veldur,“ segir Már. 

„Ég held að aðgerðirnar séu tvímælalaust að að skila árangri. …
„Ég held að aðgerðirnar séu tvímælalaust að að skila árangri. Það er engum blöðum um það að fletta,“ segir Már Kristjánsson yfirlæknir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tvenns konar veirulyf í baráttunni við veikindin

Hann telur að hertar aðgerðir í samfélaginu, sem tóku gildi fyrir um tveimur vikum, hafi skipt sköpum. „Ég held að aðgerðirnar séu tvímælalaust að skila árangri. Það er engum blöðum um það að fletta.“

Covid-19-sjúklingum býðst lyfjameðferð ef veikindin eru alvarleg. 

„Við höfum úr tvenns konar veirulyfjum að spila núna, það er annars vegar lyf sem heitir favipiravir sem er notað í töfluformi og svo erum við með annað lyf sem er fyrir þá sem eru heldur veikari og heitir remdesevír. Svo höfum við verið að nota sterka stera undir vissum kringumstæðum sem heita dexamethasone,“ segir Már, spurður um lyfin. 

„Síðan er það sem ég held að skipti miklu máli og það er þetta símaeftirlit og innköllun þegar fólki virðist vera að versna. Þá getur það fengið mat þar sem það fær fullvissu um ástand sitt sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt líka, þessi vitneskja fólks um að það sé verið að fylgjast með því og gæta að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina