„Ég segi það bara; helvítis kerfið!“

Geðhjálp stendur fyrir átakinu 39.
Geðhjálp stendur fyrir átakinu 39. mbl.is/Hallur Már

Anna Sif Ingimarsdóttir gagnrýnir heilbrigðiskerfið harðlega í færslu sem hún skrifar á facebooksíðu sína en eitt ár er liðið síðan eiginmaður hennar framdi sjálfsvíg.

Hún segist vera með átakanlega reynslu af því að eiginmaður hennar og faðir barna hennar veiktist skyndilega af alvarlegu þunglyndi og geðrofi. Hún hafi í kjölfarið komið að lokuðum dyrum hjá geðheilbrigðiskerfinu.

Með miklar ranghugmyndir

„Ég er kona með átakanlega reynslu af því að þurfa að halda öllum boltum á lofti, börnunum okkar, heimilinu, lífinu og sjúklingi með lífshættulega blæðandi sár og þurfti vöktun í margar vikur,“ skrifar hún í færslu sinni.

„Ég er kona með átakanlega reynslu af því að leita allra hugsanlegra leiða til að fá hjálp fyrir fársjúkan mann sem svaf ekki svo vikum skipti og ekki ég heldur, mann sem var með miklar ranghugmyndir, mann sem gat ekki lengur tekið ákvarðanir, mann sem gat ekki lengur hugsað um börnin sín, mann sem hélt ekki lengur uppi samræðum, mann sem var kominn í annan heim en við hin, mann sem hafði aldrei orðið misdægurt en var ekki lengur skugginn af sjálfum sér,“ bætir hún við og segist ekki hafa fengið viðunandi hjálp fyrr en hún bað vini og vandamenn og svo þeirra vini um hjálp.

„Ég er kona með átakanlega reynslu af því að öll þessi barátta við að fá hjálp varð til þess að ég og okkar fólk misstum trúna á okkar annars lofaða heilbrigðiskerfi og reiðin ...já reiðin beinist í eina átt. Ég segi það bara; helvítis kerfið!,“ skrifar hún og furðar sig á því að fólk sem hafi greitt skatta sína og skyldur í mörg ár fái slíka þjónustu.

„Nú er ár liðið frá því að maðurinn minn tók sitt eigið líf. Það voru þung skrefin að þeirri stundu að þurfa að segja börnunum okkar að pabbi þeirra væri dáinn. „Hvernig?“ var þá fyrsta spurningin. Einmitt, það var átakanlegt að þurfa að segja það upphátt.

En nú er ég einstæð móðir sem geri mitt besta til að fleyta börnum okkar áfram í gegnum þessa erfiðu lífsreynslu. Því að missa ástvin í sjálfsvígi er eitt mesta áfall sem hugsast getur og leiðin að betri líðan fyrir okkur hin er skrykkjótt,“ bætir hún við í færslunni.

„Boðið í hringinn aftur“

Jafnframt segist henni hafa verið „boðið í hringinn aftur“ því barnið þeirra hafi verið andlega lamað í heilt ár. „Við þurftum aftur á bráðaþjónustu að halda en nei allt kom fyrir ekki. Það þarf tilvísun! Það þarf fyrst að hitta heimilislækni til að fá tilvísun! Þegar ég hringi á heilsugæsluna til að fá tíma hjá heimilislækni til að fá tilvísun til geðlæknis, þá talaði ég við símsvara sem gaf mér ýmsa valmöguleika þrisvar sinnum! Ég var á endanum ekki viss hvort ég hefði hringt rétt og skellti á.“

Því næst fór hún á bráðamóttökuna með barnið og „þar þurfti ég að ryðjast áfram grenjandi með frekju til þess að barninu mínu væri sinnt samdægurs. Og af hverju þurfti það til? Vegna þess að svona tilfelli eiga betur heima á heilsugæslunni var svarið sem ég fékk“.

Anna Sif hvetur fólk til að skrifa undir áskorun Geðhjálpar á 39.is þar sem skorað er á stjórnvöld og samfélagið allt að setja geðheilsu í forgang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert