Segir ríkisstjórnina skýla sér bak við þríeykið

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir það Alþingi ekki samboðið að meiriháttar ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir, þar sem borgaralegum réttindum er ýtt til hliðar, séu teknar án efnislegrar umræðu í þinginu.

Ríkisstjórnin hafi útvistað ábyrgðinni á meðhöndlun faraldursins til embættismanna, þ.á m. þríeykisins til að forðast gagnrýni.

Þetta sagði Bergþór í umræðum á Alþingi nú fyrir stundu, en þar er rætt um skýrslu sem Páll Hreinsson lögfræðingur hefur tekið saman fyrir forsætisráðherra um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til sóttvarnaráðstafana.

„Flótti stjórnvalda frá ábyrgð í málinu er svo einbeittur að sóttvarnalæknir þurfti að kalla sérstaklega eftir því að stjórnvöld kæmu að borðinu,“ sagði Bergþór án þess að útskýra það nánar. Vera má að hann hafi vísað til þess þegar sóttvarnalæknir lagði fyrir ráðherra nýju útfærslur að aðgerðum á landamærum.

Bergþór sagði engum blöðum um það að fletta að áhrif sóttvarnaaðgerða væru gríðarlegar og heilu atvinnugreinarnar berðust nú í bökkum. „Hægt er að  líta á samfélagið sem eitt risastórt stjórnborð með þúsund mælum. Undanfarna mánuði hefur verið einblínt á einn mæli, það er Covid-19-tölfræðin, en ótalmargir aðrir mikilvægir látnir liggja á milli hluta. Það er staða sem ekki er hægt að búa við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert