Sigur Rós skorar á stjórnvöld að breyta lögum

Liðsmenn Sigur Rósar á leið í dómsalinn á síðasta ári.
Liðsmenn Sigur Rósar á leið í dómsalinn á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Núverandi og fyrrverandi meðlimir hljómsveitarinnar Sigur Rósar hafa skorað á íslensk stjórnvöld að endurskoða skattalöggjöfina sem þeir segja óréttláta og hafi leitt til þess að þeir séu á barmi gjaldþrots.

Í lok febrúar á þessu ári ógilti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fjórmenninganna. Héraðsdómur hafði vísað málinu frá með vísan í tvöfalda refsingu og þrefalda málsmeðferð sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafði áður þrívegis dæmt íslenska ríkinu í óhag.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Sigur Rósar-manna segja þeir að fjármálaráðgjafar þeirra hafi svikið þá á árunum 2011 til 2014. Liðsmenn sveitarinnar hafi talið að rannsókn á skattamálum þeirra myndi hreinsa þá af öllum ásökunum um skattsvik. „Við höfum alltaf veitt fulla aðstoð við allar rannsóknir og við náðum samkomulagi við íslensk skattayfirvöld um að borga það sem við skulduðum, ásamt vöxtum og sektum,“ segir í yfirlýsingunni.

Síðan þá segjast þeir hafa orðið fórnarlömb óréttlátrar meðferðar af íslenskum stjórnvöldum sem hafi reynt að láta þá líta út fyrir að hafa reynt að svíkja viljandi undan skatti. Því hafi þeir ávallt neitað harðlega. „Við höfum verið ákærðir og dæmdir tvívegis fyrir sama brotið, eignir okkar hafa verið frystar í einhver ár og við eigum mögulegt gjaldþrot yfir höfði okkar,“ segja þeir og hvetja íslensk stjórnvöld til að ógilda „þessi úreltu skattalög“. Þar eiga þeir við tvöföldu refsinguna. 

Fram kemur að stjórnvöld hafi ákveðið að gera hlé á því að lögsækja í málum sem tengjast þessari tvöföldu refsingu en samt sem áður séu yfir 100 slík mál í gangi í dómskerfinu. Þetta segir hljómsveitin bæði mótsagnakennd og undarlegt.

„Við viljum varpa ljósi á kerfisbundin mistök frekar en einstaklinga,“ segja þeir í yfirlýsingunni og bæta við að þeir ásamt fleirum hafi lent í „skammarlegum mistökum íslenska dómskerfisins sem gerir ekkert annað en að láta landið okkar líta illa út.“

mbl.is