50 eftirskjálftar – allar línur rauðglóandi

Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.
Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. mbl.is/RAX

Allar línur Veðurstofunnar hafa verið rauðglóandi eftir að jarðskjálfti af stærðinni 5,6 reið yfir klukkan 13:40 í dag, 6 km vest­an við Kleif­ar­vatn. Skjálftinn fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og hafa samviskusamir borgarbúar hringt til að láta vita af hristingnum.

Bryndís Ýr Gísladóttir náttúruvársérfræðingur segir að starfsfólk Veðurstofunnar sé að fara yfir skjálftann og sé ekki með upplýsingar um mögulegt tjón vegna hans.

Fjöldi eftirskjálfta hefur fundist eftir stóra skjálftann en Bryndís segir að nú, rúmum hálftíma eftir þann stóra, séu þeir orðnir 50.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/20/jardskjalfti_af_staerd_5_6_a_reykjanesskaga/

Bryndís segir að líklega muni skjálftavirkni halda áfram á svæðinu eitthvað fram eftir degi og kvöldi, þó erfitt sé að segja til um slíkt. Enn fremur segir hún erfitt, eða nánast ómögulegt, að segja til um hvort von sé á öðrum stórum skjálfta.

Upptök skjálftans eru rétt við Krýsuvík og segir Bryndís svæðið mjög virkt skjálftasvæði. Engin merki séu um neinn gosóróa.

mbl.is