Einstaka smit í sundi en „fullt“ í líkamsrækt

Frá líkamsræktarstöð í mars, kvöldið áður en þær þurftu að …
Frá líkamsræktarstöð í mars, kvöldið áður en þær þurftu að loka í fyrsta sinn vegna Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki vita hvort þær takmarkanir sem líkamsræktarstöðvum hafa verið settar muni duga til að koma í veg fyrir smit innan stöðvanna. Hann vonar það þó. Hundruð smita í þriðju bylgju má rekja til líkamsræktarstöðva.

Þórólfur hafði lagt til að líkamsræktarstöðvum yrði áfram lokað, eins og verið hefur í rúmar tvær vikur. Á það féllst heilbrigðisráðherra ekki og er líkamsræktarstöðvum nú heimilt að opna á svokallaða „lokaða tíma“ þar sem mest 20 koma saman. Fólki er ekki heimilt að deila búnaði og tveggja metra reglan skal viðhöfð.

„Ég veit það ekki en vona það svo sannarlega,“ segir Þórólfur, spurður hvort hann telji að gildandi takmarkanir muni koma í veg fyrir smit. 

„Ég hafði náttúrulega lagt til að þeim yrði lokað áfram. Ég vona svo sannarlega að þær takmarkanir sem voru settar á þeirra starfsemi dugi. Maður getur ekkert annað gert en vonað að menn standi sig í því.“

Sundlaugar eru víða tómlegar þessa dagana en sundlaugum á landsbyggðinni …
Sundlaugar eru víða tómlegar þessa dagana en sundlaugum á landsbyggðinni hefur þó ekki verið lokað. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Klórinn í laugunum drepur veiruna

Eins og áður sagði lagði Þórólfur til að allar líkamsræktarstöðvar landsins yrðu lokaðar áfram, sundstöðum á höfuðborgarsvæðinu stæðu einnig lokaðir en sundstaðir á landsbyggðinni mættu halda dyrum sínum opnum. Spurður hvers vegna sé skárra að opna sundlaugar en líkamsræktarstöðvar segir Þórólfur:

„Við erum í grunninn bara að reyna að minnka hópamyndum, hvaða nafni sem hún nefnist. Ég held að smithætta sé almennt minni í sundi en líkamsræktarstöðvum.“

Hvers vegna?

„Það er bara öðruvísi hópamyndun í laugunum og svo drepur klórinn í vatninu í laugunum veiruna. Það er hægt að rekja einstaka smit til sundlauga en það er hægt að rekja fullt af smitum til líkamsræktarstöðva.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á einum af fjölmörgum upplýsingafundum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á einum af fjölmörgum upplýsingafundum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfum dæmin fyrir augunum

Fólki er náttúrulega ekki heimilt að nota sameiginlegan búnað í líkamsræktarstöðvunum en er það nóg? Er ekki líka hætta á dropasmiti í líkamsrækt?

„Það hefur náttúrulega verið gerð krafa um þessa tveggja metra reglu. [...] Það hefur verið mælst til þess að búnaður sé hreinsaður á milli einstaklinga en ég veit svo sem ekkert hvernig það hefur verið í framkvæmd í sjálfu sér. Við höfum bara þessi dæmi fyrir augunum núna í þessari bylgju smits sem er í gangi núna,“ segir Þórólfur. 

Er meiri hætta á dropasmiti eða snertismiti í þessum stöðvum? 

„Ég held að það sé erfitt að segja. Þetta tengist allt þessu þrennu sem við erum búin að vera að hamra á að geti spilað rullu þar. Það er dropasmit, úðasmit hugsanlega og svo snertismit,“ segir Þórólfur.

Bjóða snerti- og dropasmit upp á jafn mikla smithættu?

„Ég held að það geti bara verið breytilegt frá einum stað til annars og einum tíma til annars.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert