Fara í viðræður um opnun neyslurýmis

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillaga um að velferðarsviði Reykjavíkurborgar verði falið að fara í viðræður við heilbrigðisráðuneytið um opnun neyslurýmis í Reykjavík hefur verið samþykkt einróma af borgarstjórn.

„Neyslurými eru skaðaminnkandi úrræði sem dregur úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra ávana- og fíkniefna án þess endilega að draga úr notkun ávana- og fíkniefna,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs borgarinnar, sem flutti tillöguna fyrir hönd meirihlutans.

„Það er mikilvægt að í okkar samfélagi sé slíkt úrræði sem standi fólki opið en samkvæmt rannsóknum þá upplifir fólk sem notar vímuefni um æð fordóma í samfélaginu og meðal annars innan heilbrigðiskerfisins. Það eykur á vanda þeirra og skapar aukna hættu að þau leiti ekki hjálpar og stuðnings,“ segir hún í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert