Frost en þurrar götur

Frost er á höfuðborgarsvæðinu og mátti búast við því að hálkublettir mynduðust á götum, stígum og gangstéttum en þar sem þurrt hefur verið í veðri er ekki hálka á götum. Það borgar sig samt að fara varlega ef einhvers staðar hafa leynst pollar á stígum að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Allar götur á höfuðborgarsvæðinu eru grænmerktar sem þýðir að þær eiga að vera greiðfærar. Aftur á móti er hálka á fjallvegum fyrir norðan og vestan.

Að sögn vaktstjóra hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar var deildin búin undir það að fara út í nótt að salta götur og stíga en þess hafi ekki gerst þörf vegna góðra skilyrða þegar frysti. Vel sé fylgst með og gripið inn ef þurfa þykir.

Fólk er beðið að fara farlega til öryggis á meðan enn er myrkur yfir höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega þeir sem eru gangandi og hjólandi. 

Í dag er spáð hægri norðlægri eða breytilegri átt og bjart með köflum en skúrir eða él á stöku stað. Hiti kringum frostmark. Víða léttskýjað í dag en suðvestan 3-10 m/s og skúrir eða él norðvestantil og úti við norðausturströndina. Hiti 1 til 5 stig að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert