Grunur um brot á sóttkví

Lögreglan hafði afskipti af tveimur ölvuðum mönnum í miðborginni í nótt en annar þeirra er grunaður um brot á sóttkví þar sem hann er nýlega kominn til landsins. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Starfsmaður á veitingastað í miðborginni óskaði aðstoðar lögreglu um tíuleytið í gærkvöldi þar sem ofurölvi maður svaf við útgöngudyr og því ekki hægt að opna dyrnar. Maðurinn var ósjálfbjarga sökum ölvunar og því handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans batnar.

Í nótt var síðan för ökumanns í miðborginni stöðvuð þar sem hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Átján ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrettán þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, fjórir í Hafnarfirði og einn í Kópavogi. Einn var tekinn á föstudagskvöld, níu á laugardag, sjö á sunnudag og einn aðfaranótt mánudags. Þetta voru þrettán karlar á aldrinum 23-58 ára og fimm konur, 17-54 ára. Sex þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert