„Hætti að lítast á blikuna“

Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/​Hari

„Ég hljóp upp á Esju,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata hlæjandi, í samtali við mbl.is. Þingmaðurinn sagðist vera á leið aftur á þingfund en hann forðaði sér úr pontu Alþingis þegar skjálfti af stærðinni 5,6 reið yfir höfuðborgarsvæðið.

„Mér hætti að lítast á blikuna þegar allt fór að nötra þarna inni, eins og sást,“ segir Helgi þegar hann er spurður um líðan þegar skjálftinn reið yfir.

Myndskeið af Helga Hrafni hlaupa úr pontu hefur vakið töluverða athygli en á sama tíma og Helgi hvarf sat Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sem fastast og bað fólk um að halda ró sinni.

Helgi Hrafn segir að honum þyki viðbrögð sumra á Twitter nokkuð skondin, þar sem meðal annars er bent á að honum sé „alveg sama um eldri borgarann í pontunni.“

Já, ég biðst afsökunar á þessu, ég hefði átt að rífa Steingrím J. Sigfússon í snarhasti úr forsetastól, skella honum á axlirnar á mér og stökkva fram af Alþingissvölunum. Sé það núna. Afsakið mig,“ var svar Helga Hrafns á Twitter.

Þingmaðurinn segist hafa lært í æsku að maður ætti að fara undir hurðarkarminn í jarðskjálfta. Svo þegar hann geri það uppskeri hann hlátur.

„Ég ætlaði mér undir hurðarkarminn í þessu gamla húsi. Ég hefði ekki hlaupið út úr herberginu mínu heima en þarna inni var þetta svolítið mikill skjálfti,“ segir Helgi Hrafn.

„Það er gaman að þessu eftir á. Vonandi fáum við ekki fréttir  af slysum eða mikilli eyðileggingu eftir á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert