Stór sprunga í gólfi flugskóla Keilis

Stór sprunga í gólfi í húsakynnum flugskóla Keilis.
Stór sprunga í gólfi í húsakynnum flugskóla Keilis. Ljósmynd/Davíð Brár

Stór sprunga er nú í gólfi flugskóla Keilis eftir að jarðskjálfti 5,6 að stærð reið yfir Reykjanesskaga klukkan 13.43 í dag.

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs er á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll.

Davíð Brár Unnarsson, skólastjóri Flugakademíu Íslands, sagði í samtali við mbl.is að í ljós hefði komið að örlítil sprunga hefði verið fyrir í gólfinu en hún hefði gliðnað talsvert við jarðskjálftann. 

Davíð Brár segir ekki fleiri skemmdir hafa orðið að sér vitandi en að jörð skjálfi ennþá og hann finni enn mikla eftirskjálfta. 

Dýr búnaður er í flughermum Flugakademíunnar og segir Davíð að þau hafi haft nokkrar áhyggjur af honum. 

Kennsla stóð yfir í flugherminum þegar skjálftinn reið yfir og brá nemendum nokkuð við það en áttuðu sig fljótt, að sögn Davíðs. 

Ljósmynd/Davíð Brár
mbl.is