Þurfa einfaldlega meiri tíma

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, er einnig slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, er einnig slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/

„Þegar þú ert með svona dýrmætan farm eins og skólasamfélagið þá þarf að fara sérstaklega varlega,“ segir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is um lokun íþróttamannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

Með því að halda íþróttamannvirkjum og sundlaugum höfuðborgarsvæðisins lokuðum í a.m.k. eina viku til viðbótar og fella niður allt skólasund fær almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins, skólayfirvöld og íþróttahreyfingar á svæðinu aðeins meiri tíma til þess að velta því fyrir sér hvernig þau vilja verja skólana fyrir smitum, að sögn Jóns.

Hafa komið upp slæm tilfelli í skólum

„Það hafa verið að koma upp dálítið slæm tilfelli í skólunum og margir hafa verið sendir í sóttkví, nú síðast um 380 í Árbæjarskóla,“ segir Jón.

Almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu tóku fyrrgreinda ákvörðun með skólayfirvöldum og þeim sem sjá um íþróttastarf hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

„Við vorum að velta fyrir okkur hvað við gætum gert til þess að verja skólana. Það var búið að skipta skólunum upp í hópa, þeir voru mismargir á milli skóla, eftir því hvernig skólinn er byggður og hvað er mögulegt. Ef það kæmi upp smit værum við búin að gera eitthvað til þess að koma í veg fyrir að allur skólinn þyrfti að fara í sóttkví heldur þá einungis einn eða tveir hópar,“ segir Jón.

„Þetta er vinna sem er búin að vera í gangi lengi. Tvær síðustu vikur eða svo, síðan harðari aðgerðir voru settar á á höfuðborgarsvæðinu erum við búin að vera með allt íþróttastarf utandyra til þess að lágmarka líkur á því að það geti komið upp smit á milli einstaklinga sem eru í mismunandi hópum.“

Mikilvægt að setjast niður og ákveða framhaldið

Áður var skólasund leyft þó sundlaugar væru lokaðar. Eins og áður segir er nú komið annað hljóð í strokkinn.

„Hið sama höfum við gert varðandi sundið vegna þess að sums staðar er hreinlega verið að keyra nemendur úr mörgum skólum í eina sundlaug. Þá vorum við að reyna að minnka líkurnar á því að það myndu komast einhver smit á milli skóla,“ segir Jón.

Þegar raddir fóru að heyrast um að reglurnar væru ekki nægilega skýrar hvað íþróttastarf varðar ákváðu almannavarnir, skólayfirvöld og sveitarfélög að best væri að gefa ákvarðanatöku aðeins meiri  tíma með því að loka mannvirkjunum.

„Ég held að það sé mikilvægt að allir setjist niður á þessum tímapunkti og ræði framhaldið þannig að allar sóttvarnir verði til sóma og ekki sé nein hætta á því að það komi upp nein smit, og ég  ég tala nú ekki um að það berist smit inn í skólakerfið vegna þess að sum af þessum íþróttahúsum eru í raun og veru beintengd inn í skólan,“ segir Jón.

Mikið af óljósum ákvæðum

Einstaka ákvæði í reglugerðinni, t.d. ákvæði um að það eigi að sótthreinsa á milli allra hópa, vöfðust aðeins fyrir skólayfirvöldum og almannavörnum á höfuðborgasvæðinu.

„Það hefur ekki verið útfært alveg hvernig það á að gerast eða hver eigi að bera ábyrgð á því [að sótthreinsa á milli hópa] þannig að það var mikið af óljósum atriðum sem þarf bara að setjast niður og reyna að leysa. Okkur fannst [lokun] vera besta lausnin í stað þess að fara af stað með nokkurn veginn óskrifað blað að skrifa í raun og veru bara upp hvernig við viljum hafa þetta og leggja síðan af stað.“

Er útlit fyrir að mannvirkin verði opnuð að viku liðinni?

„Ég held að það séu allir á því að gefa þessu þann tíma sem þarf og það kæmi ekkert á óvart ef það væri komin niðurstaða á þeim tímapunkti.“

Mæltu sóttvarnayfirvöld með þessu?

„Þetta er í raun það skásta sem okkur fannst að við gætum gert í stöðunni því ég held að það skipti ekki öllu hvort íþróttahúsin verði opnuð degi fyrr eða síðar,“ segir Jón sem bætir því við að almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hafi verið í góðu samstarfi við íþróttahreyfinguna.

„Það eru gjörsamlega allir á því að vanda sig því það versta sem getur komið upp fyrir alla eru einhver smit. Það yrði dálítið bakslag og menn þyrftu þá að fara aftur á bak með einhverja hluti, allir sem við höfum rætt við eru með skýrt markmið: Að gera allt til að minnka áhrif þessarar veiru og helst að fá hana út úr samfélaginu. [...] Þetta er í raun og veru enginn ágreiningur um eitt eða neitt, við þurfum bara aðeins meiri tíma til þess að fara yfir hlutina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert