Verslun rýkur upp

Veruleg veltuaukning varð í verslunum með byggingavörur og verslunum með …
Veruleg veltuaukning varð í verslunum með byggingavörur og verslunum með raf- og heimilistæki í september. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkt og í fyrstu bylgju kórónuveirufarsóttarinnar jókst innlend verslun töluvert þegar veiran lét á sér kræla á ný. Á sama tíma og verslun eykst minnkar bæði neysla á þjónustu og neysla erlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

„Íslendingar halda uppteknum hætti í verslun á tímum kórónuveirufaraldursins og jókst verslun um 26,3% milli ára í septembermánuði. Velta í verslun nam 39,2 milljörðum kr. og dróst lítillega saman milli mánaðanna ágúst og september eða um 1,87% (749 milljónir kr.). Heildarkortavelta var þá 68,5 milljarðar í mánuðinum og jókst um 9% milli ára.

Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum nam 16,6 milljörðum kr. í mánuðnum sem leið. Velta flokksins jókst um rúmlega 21% milli ára. Aukin heimavinna auk sóttkvíar á vafalaust þátt í aukningu dagvöruverslunar með greiðslukortum. Á móti má ætla að umsvif mötuneyta vinnustaða sem dæmi hafi dregist saman,“ segir í tilkynningu.

36% aukning á sölu í fatabúðum

Fataverslun jókst um 36% á milli ára í september og rétt tæp 9% frá því í ágúst sl. Í fyrstu bylgju faraldursins í vor mátti sjá töluverðan samdrátt í fataverslun ólíkt því sem var í síðasta mánuði.

Aðrir flokkar sérvöru hækkuðu einnig frá fyrra ári. Veruleg veltuaukning varð í verslunum með byggingavörur og verslunum með raf- og heimilistæki. Í fyrrnefnda flokknum jókst veltan um 45% milli ára og nam 3,3 milljörðum kr. Í þeim síðarnefnda nam veltan alls 2,6 milljörðum og jókst um tæp 54% milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert