1.700 skjálftar – hrinunni ekki lokið

Stærsti jarðskjálftinn var 5,6 að stærð. Upptök hans voru á …
Stærsti jarðskjálftinn var 5,6 að stærð. Upptök hans voru á Núphlíðarhálsi á Reykjanesskaga. kort/mbl.is

Yfir 1.700 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar jarðskjálfta af stærð 5,6 á Núphlíðarhálsi á Reykjanesskaga sem varð klukkan 13:43 í gær. Er það stærsti skjálfti sem mælst hefur á Reykjanesi síðan 2003.

Tveir skjálftar yfir 3 mældust í nótt en alls hafa 19 skjálftar yfir 3 að stærð hafa verið staðfestir frá stóra skjálftanum að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Uppfært klukkan 6:58

Hrinunni er ekki lokið og nú í morgun mældust tveir skjálftar í Fagradalsfjalli, annar klukkan 06:05 af stærð 3,7 og sá síðari kl. 06:23 af stærð 3,8. 

Áfram er fylgst grannt með skjálftavirkni á Reykjanesinu allan sólarhringinn en fjölmargar tilkynningar bárust Veðurstofunni víða að frá fólki sem fann skjálftann, meðal annars frá Akureyri og Ísafirði.

Aukin hætta er á grjóthruni úr bröttum hlíðum á Reykjanesskaga á meðan hrinan stendur og er ferðafólk beðið um að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum. 

„Þetta er partur af atburðarás sem hefur staðið frá því í janúar og jafnvel síðan í desember. Flekaskilin sem liggja eftir Reykjanesi eru öll undir,“ sagði dr. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

„Það varð svolítið hlé á skjálftavirkninni en þetta er greinilega ekki búið. Það er alveg eins von á fleiri skjálftum og að þessi virkni breiðist svolítið út.“

Hann sagði ómögulegt að segja fyrir um það á þessu stigi hver framvindan yrði. Til þess þyrfti mælingar og ítarlegar rannsóknir sem ekki væru fyrir hendi.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir GPS-mælingar benda til landriss við Krýsuvík.

Hún bendir á að landris hafi áður verið á þessu svæði enda sé þarna stórt jarðhitasvæði. Hún segir landrisið ekki eins mikið og var við fjallið Þorbjörn og að risið hafi ekki komið fram í gervitunglagreiningum. „Þetta er samt einhver minniháttar breyting sem við höfum verið að fylgjast með,“ segir Kristín.

Spurð hvort landrisið tengist jarðskjálftunum í gær segir hún það ekki vera óhugsandi en lítið sé vitað á þessari stundu.

„Það er einhvers konar óróleikatímabil sem þessi flekaskil sem ganga í gegnum Reykjanesskagann eru núna að ganga í gengum. Það er óvenju mikil skjálftavirkni og svo höfum við verið að sjá mjög skýr merki um innskotavirkni og óskýrari merki um einhverjar færslur,“ greinir hún frá og segir hliðrun vera að eiga sér stað á flekaskilunum, meiri en verið hefur undanfarin ár.

Hún nefnir að virknitímabilið sem núna er í gangi hafi byrjað í febrúar. Svona miklum virknitímabilum fylgi stórir skjálftar. Bendir hún á að á síðustu öld hafi tvö slík tímabil orðið og innan þeirra beggja hafi orðið skjálftar af stærðinni 6 við Brennisteinsfjöll á árunum 1929 og 1968. „Það er töluvert meiri orka í þeim heldur en 5,6,“ segir hún.

Spurð út í næstu skref segir hún að tilkynning hafi borist um óvenju mikla gaslykt og telur Kristín að stóri skjálftinn í gær hafi „rótað aðeins upp í jarðhitakerfinu“.

mbl.is