Dregur úr jarðskjálftavirkni

Keilir. Myndin er tekin við háhitasvæðið við Sogin, sunnan við …
Keilir. Myndin er tekin við háhitasvæðið við Sogin, sunnan við Trölladyngju og Grænudyngju. Upptök stóra skjálftans eru þar skammt frá. mbl.is/Þorsteinn

Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni á Reykjanesi á síðustu klukkustundum en mikil virkni hefur verið á svæðinu síðan jarðskjálfti 5,6 að stærð mældist í Núpshlíðarhálsi um miðjan daginn í gær. Á annað þúsund eftirskjálftar hafa mælst, þar af nokkrir stærri en 3 stig. 

Veðurstofan óskar nú eftir myndum og myndskeiðum sem kunna að hafa verið tekin af Kleifarvatni þegar skjálftinn varð enda getur verið að þar hafi myndast titringur í skjálftanum. 

Krist­ín Jóns­dótt­ir, hóp­stjóri nátt­úru­vár­vökt­un­ar hjá Veður­stofu Íslands, segir að ekki hafi verið gerðar gasmælingar vegna ábendinga um gaslykt í ná­grenni Græna­vatns á Núpstaðahálsi og ekki sé útlit fyrir að slíkar mælingar verði gerðar. 

„Í raun kemur ekkert rosalega mikið á óvart að þetta gerist í kjölfar skjálfta. Það getur hreinlega verið að þegar hristist upp í svæðinu losi þessi heitu gös um lífrænt efni. Það er náttúrlega mikill hiti þarna á jarðhitasvæðinu, að einhverju leyti hitnar það svo það kemur einhver svona olíulykt. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona gerist.“

Ekki talin bein hætta á ferðum

Svo það er ekki útlit fyrir að gasmælingar fari fram? 

„Aðaltækið okkar er uppi á Grímsfjalli akkúrat núna, þetta eru dýr tæki og við erum ekki með meira til að sinna þessu. Auk þess er ekki talin nein bein hætta á ferðum.“

Um klukkan tvö lauk fundi á Veðurstofunni þar sem m.a. var farið yfir stöðuna með tilliti til skjálftans. Spurð um stöðuna segir Kristín:

„Það dregur úr virkninni. Svo erum við erum líka aðeins að rýna í aflögunargögn, það kemur einhvers konar merki núna inn á þau vegna þess að í þessum skjálfta varð færsla sem er varanleg um þessa jarðskjálftasprungu sem hrökk.“

Mögulega myndaðist einhver titringur á Kleifarvatni í skjálftanum, að sögn Kristínar. Ef einhver hefur tekið myndir eða myndbönd af vatninu þegar skjálftinn reið yfir eða ef einhver vitni að slíku vilji gefa sig fram er mögulegt að koma myndskeiðum eða öðrum upplýsingum áleiðis í gegnum Facebook-síðu Veðurstofunnar.

mbl.is