„Finnst þetta mjög leiðinlegt“

Myndin sem um ræðir, en sjá má merkin þrjú á …
Myndin sem um ræðir, en sjá má merkin þrjú á fatnaði lögregluþjónsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var ekki ætlunin að valda særindum og mér finnst þetta mjög leiðinlegt.“ Þetta segir Aníta Rut Harðardóttir lögregluþjónn, en mynd af henni við skyldustörf með þrjá fána sem hafa verið tengdir við hatursorðræðu birtist á mbl.is.

Merk­in sem voru innanklæða hjá Anítu eru þrjú og virðast vera; ís­lensk út­gáfa af svo­kölluðum „thin blue line“-fána sem er í svart­hvítu fyr­ir utan bláa línu í gegn­um fán­ann miðjan, dökk­leit út­gáfa af ís­lenska fán­an­um með stöf­un­um IS í hægra horn­inu og svo­kallaður „Vín­lands­fáni“ með Punisher-teiknimyndakarakter á.

Hún segist ekki hafa þekkt merkinguna á bak við Vínlandsfánann og Punisher en hún hafi ekki talið óeðlilegt að bera hin tvö merkin. Segir hún að ef þetta hafi neikvæða merkingu í huga fólks og komi því í uppnám muni hún sjálfsagt fjarlægja merkin.

Hún segist upphaflega hafa valið að vera með merkin því sér hafi þótt þau flott, en Vínlandsfánann fékk hún í skiptum við annan lögreglumann hérlendis. Segir hún mjög algengt að lögreglumenn beri ýmiss konar merki og skipti þeim reglulega.

Aníta segir sorglegt að hafa verið sökuð um hatursorðræðu eða kynþáttahyggju. „Ég myndi aldrei bera fána sem ég vissi að væru með rasískum merkjum,“ segir hún.

„Thin blue line“-fáninn, eða bláa línan, er að hennar sögn tákn fyrir lögregluna og merkir línu milli reglu og óreglu í samfélaginu og hefur að hennar sögn verið notaður lengi meðal lögreglumanna hér á landi sem erlendis. Segir hún að enginn hafi tengt það við kynþáttahyggju. Á undanförnum árum, sérstaklega með vexti „Black lives matters“-hreyfingarinnar, hefur merkið þó einnig verið túlkað sem andsvar við hreyfingunni og þannig tengt við hvíta þjóðernishyggju. Segist Aníta ekki hafa heyrt af slíku og að hver verði að gera upp við sig hvernig hann túlki þetta merki.

Hún segir sorglegt að hafa verið sökuð um hatursorðræðu og kynþáttahyggju og tekur fram að hún tilheyri stétt sem vinni gjöfult og þarft starf. Hún segir að umræða sem þessi sýni aftur að auðvelt virðist vera að koma höggi á lögregluna, en lítið hafi verið gert úr þeirra hlutverki til dæmis sem framlínustarfsmanna í faraldrinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina