Kallar eftir heildstæðri úttekt á sérkennslu

Um 30% allra grunnskólabarna í Reykjavík eru í sérkennslu.
Um 30% allra grunnskólabarna í Reykjavík eru í sérkennslu. mbl.is/Hari

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýnir meirihlutann í borgarstjórn fyrir slöpp vinnubrögð í málefnum tengdum sérkennslu barna. „Þau hafa tapað heildarsýninni á þessum málaflokki,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að fela vinnuhópi að endurskoða umgjörð í kringum sérkennslu barna í grunn- og leikskólum landsins.

„Ég var ekki sátt með það,“ segir Kolbrún, en Flokkur fólksins hafði lagt fram bókun á sama fundi þar sem leitast var eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar tæki málið til heildstæðrar úttektar. 

Fimm milljarðar á ári í sérkennslu

Sérkennsla í skólum borgarinnar hefur aukist töluvert á síðustu árum, en í svörum skólayfirvalda við fyrirspurnum Kolbrúnar kemur fram að í dag eru um 30% grunnskólanemenda að jafnaði í sérkennslu, miðað við 26% árið 2011. Þá er kostnaður vegna sérkennslu á bæði grunn- og leikskólastigi um fimm milljarðar króna á ári.

„Þetta er í rauninni það stórt [...] að mér finnst bara ástæða til þess að fá einhvern sem er eins óháður og hann getur orðið, eins og innri endurskoðun, til þess að skoða þetta ofan í kjölinn og skila svo af sér nákvæmri skýrslu,“ segir Kolbrún.

„Það er einhver vinnuhópur sem er að skoða þessi mál og mér fannst bara óljóst hvað hann er búinn að vera lengi að störfum og hvenær hann muni skila af sér. Það eru hundruð svona hópa í borginni og ég hef sjálf ekki nógu góða reynslu af mörgum þeirra,“ segir Kolbrún.

„Svo finnst mér líka að þetta mál sé einfaldlega þannig vaxið að það þurfi að kortleggja þetta af óháðum aðila. Þetta er mjög mikill frumskógur þegar maður fer að kafa ofan í þetta.“

Segir mikilvægt að greina á milli sérkennsluflokka

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Sérkennsla er ætluð nemendum sem hafa mikla þörf fyrir kennslu sem er sérstaklega löguð að sértækum námserfiðleikum, félags- og tilfinningalegum erfiðleikum eða fötlunum. Kolbrún segir tölurnar hins vegar ekki segja neitt til um hvers konar sérkennslu er að ræða.

„Ekki er að sjá að gerður sé nægjanlegur greinarmunur á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja. Sé ekki gerður greinarmunur á þessu má ætla að hlutfall grunnskólanema sem eru skráðir í „sérkennslu“ sé hærra en raun ber vitni,“ segir Kolbrún. „Ég er sjálf sálfræðingur til 30 ára, vann í skóla í tíu ár og er kennari líka svo ég þekki þessi mál mjög vel.“

Hún segir enga heildstæða stefnu vera til í sérkennslumálum í Reykjavík og að ekki liggi fyrir markvissar rannsóknir á skólastarfi og sérkennslu. Því sé ekki vitað hvort sérkennsla eða annars konar stuðningur sé að bera tilætlaðan árangur.

„Ef sérkennsla á að vera markviss verður hún að byggja á mati og greiningum,“ segir Kolbrún.

„Í þessum pakka er svo mikil flóra; þú ert með börn sem fá stuðning inni í bekknum sínum, þú ert með börn sem eru í tvo til þrjá tíma í sérkennslu, sum börn eru meira eða minna alla daga í sérkennslu. Það er einhvern veginn engin greining á þessum hópi.“

Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við börn í nágrannalöndunum en samkvæmt PISA-könnuninni 2018 lesa um 34% drengja og 19% stúlkna á aldrinum 14 til 15 ára sér ekki til gagns hér á landi.

mbl.is