„Kunnuglegt stef frá því fyrir hrun“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi nýtt rit Viðskiptaráðs Íslands í ræðu sinni á Alþingi í dag. Í ritinu er fjallað um rekstur hins opinbera og hvatt til þess að ríkið minnki umsvif sín á sviði samfélagsmótunar, þ.e. í því, sem ekki telst til grunnþjónustu og framfærslu borgara.

„Ég verð að segja, forseti, að ég vissi ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég kíkti á ný plögg Viðskiptaráðs Íslands,“ sagði Kolbeinn.

„Þar er nefnilega að finna ýmsa gamla kunningja, ef svo má að orði komast. Þar eru tillögur um hvernig megi minnka umsvif ríkisins í ýmsu, meðal annars á sviði samfélagsmótunar. Sameina ríkisstofnanir, lesist hagræðing, draga úr lögverndun og leyfisskyldu, lesist eftirliti, og hvernig eigi að ýta undir einkastarfsemi í ýmsu, til dæmis heilbrigðiskerfinu.“

Úrelt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar

Í ritinu, sem ber titilinn Hið opinbera: Meira fyrir minna, er lagt til að hið opinbera þurfi að stuðla að því að einkafjárfesting aukist á ný með skattalegum hvötum til einstaklinga og fyrirtækja.

Þá er hvatt til aukins svigrúms í einkarekstri í heilbrigðiskerfinu með þeim orðum að opinbert fjármagn eigi að fylgja sjúklingum þangað sem þeir leita, en ekki að renna til stofnana sem slíkra.

„Þetta er kunnuglegt stef frá því fyrir hrun, frá því að við keyrðum samfélagið hér í þrot, frá nýfrjálshyggjuárunum. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta eru ekki aufúsugestir sem stinga upp kollinum núna, ekki í mínum huga í það minnsta.

Það er morgunljóst að það er tilefni til að staldra við núna og velta því fyrir sér hvað það er gott að ríkisstjórnin sé búin að efla opinbera heilbrigðiskerfið og stofnanir, hvað hið opinbera kerfi skiptir miklu máli, því úrelt hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar er ekki rétta leiðin út úr þessari kreppu. Rétta leiðin út úr kreppunni er leið samneyslu og velferðar,“ sagði Kolbeinn.mbl.is