Talið að kviknað hafi í út frá rafmagnstæki

mbl.is/Eggert

Rannsókn lögreglunnar á Vesturlandi á bruna í uppsveitum Borgarfjarðar á sunnudaginn, þar sem einn lést, beinist að því að kviknað hafi í út frá rafmagnstæki. Ekki er þó enn vitað um hvaða tæki er að ræða og er rannsóknin enn í fullum gangi.

Jón Sigurður Ólason, yfirlögregluþjónn hjá embættinu, segir í samtali við mbl.is að svo virðist vera sem eldurinn hafi komið upp annaðhvort í eldhúsi eða þvottahúsi sveitabæjarins.

Kona á áttræðisaldri lést í eldsvoðanum, en þegar slökkvilið kom á vettvang var húsið orðið alelda. Tilkynning um eldinn barst klukkan 17:30 á sunnudaginn og lauk slökkvistarfi um klukkan ellefu um kvöldið. Gjöreyðilagðist húsið í eldsvoðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert