„Það þarf úthald“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

„Nú þurfa allir að halda áfram,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. 45 greindust með kórónuveirusmit í gær og af þeim voru 24 utan sótt­kví­ar við sýna­töku. Alls eru 1206 í ein­angr­un í dag og fækk­ar um 46 á milli daga en í gær voru þeir 1252 tals­ins.

Þórólfur segir að þrátt fyrir að meirihluti þeirra sem greindist í gær hafi verið utan sóttkvíar sé ekki ástæða til að túlka daglegar sveiflur. „Undanfarna daga hafa um 70% smitaðra verið í sóttkví við greiningu,“ segir Þórólfur og bætir við að þetta virðist allt stefna í ágætis átt.

Fólki í einangrun fækkar eins og áður sagði og þá eru færri inniliggjandi á Landspítalanum. Þórólfur segir hertar aðgerðir farnar að skila árangri en þó gætum við alltaf búist við að sjá litlar hópsýkingar.

„Ég þakka samstöðu allra,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Þetta er ekki búið og það þarf úthald. Við getum farið að slaka á ýmsum aðgerðum þegar þetta er gengið niður en fólk þarf áfram að huga að sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum, forðast mannmergð og sameiginlega snertifleti.“

mbl.is