Vænta má stærri skjálfta nær Reykjavík

Á meðfylgjandi mynd er sýnt einfaldað jarðfræðikort af Reykjanesskaga, fengið …
Á meðfylgjandi mynd er sýnt einfaldað jarðfræðikort af Reykjanesskaga, fengið af heimasíðu ÍSOR. Dökkrauða svæðið er skjálftabelti Reykjanesskagans. Gulu klessurnar eru háhitasvæðin en bleiku svæðin sýna eldstöðvakerfi skagans. Skjálfti gærdagsins er merktur inn á kortið með ljósblárri stjörnu. Líklega staðsetningu skjálfta í Brennisteinsfjöllum merkti Ólafur inn á kortið með dökkfjólublárri stjörnu. Kort/ÍSOR/Ólafur Flóvenz

Ólafur Flóvenz jarðeðlisfræðingur segir að vænta megi allstórs jarðskjálfta á næstu árum í grennd við Brennisteinsfjöll. Sá gæti orðið 6-6,5 að stærð, svipaður skjálftum sem gengu yfir árin 1968 og 1929 og áttu líkast til upptök sín á þeim slóðum. Svæðið er heldur nær Reykjavík en Núpshlíð, hvar skjálfti 5,6 að stærð var í gær, því yrði skjálfti í Brennisteinsfjöllum líklega harðari í Reykjavík en sá sem gekk yfir í gær. 

Ólafur segir að engin sérstök ástæða sé til að óttast eldgos á því svæði sem skjálftinn varð á í gær. 

„Auðvitað óttast maður alltaf einhver eldgos en ef maður horfir á forsöguna þá er það þannig að þessar eldgosahrinur koma á sirka 1.000 ára fresti yfir Reykjanesskagann. Þær hafa yfirleitt byrjað austan til og færst vestur eftir. Það byrjar þá í Brennisteinsfjöllum eða gæti jafnvel hafa byrjað upp við Langjökul eða þar upp frá. Þetta er náttúrlega allt saman tengt á einhvern hátt. Það er engin ástæða til að vera hræddur við það en hins vegar eiga menn að vera við því búnir, það er svo aftur allt annað mál,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. 

Gap í skjálftavirkninni

Hann segir að jarðskjálftinn sem skall á í gær, og fannst víða á suðvesturhorninu, auki líkurnar á því að fleiri stórir skjálftar verði á næstunni. 

„Það er búið að vera gap í skjálftavirkninni og búið að vera dálítið lengi, frá Krýsuvík og austur undir Bláfjöll, við Brennisteinsfjöll og þar. Þar urðu þessir sterku skjálftar árin 1968 og 1929. Það má segja að það sé búið að brotna beggja vegna við. Við Kleifarvatn og vestur úr og svo aftur frá Hveragerði og austur á Hellu. [...] Maður veit almennt að jarðskjálftarnir stækka eftir því sem þetta færist austar þannig að maður getur búist við skjálfta upp á 6 eða 6,5 í Brennisteinsfjöllum í sjálfu sér hvenær sem er.“

Ólafur jánkar því að best sé fyrir Íslendinga að vera viðbúnir skjálftum. 

„Ef fólk [er undirbúið] þá er engin sérstök hætta á ferðum.“

mbl.is