Bjuggu til stamlaga-lista í tilefni dagsins

Erlendar athuganir hafa sýnt að á bilinu 0,7% – 1,0% …
Erlendar athuganir hafa sýnt að á bilinu 0,7% – 1,0% fólks stami. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðlegur vitundarvakningardagur um stam var í dag, 22. október. Með deginum er ætlað að vinna gegn fordómum með því að búa til vettvang fyrir aukna fræðslu og umræðu um stam og áhrif þess á líf fólks, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur um heim allan frá árinu 1998. 

Í tilkynningu frá Málbjörgu, félags um stam á Ísland, segir að það sé kallað stam þegar talsverð spenna fylgir máltjáningu, sama orðið eða atkvæðið er endurtekið oft, hljóðin eru lengd eða viðkomandi festist og kemur engu út í nokkurn tíma. Þá er oft gripið til þess ráðs að geifla sig og gretta eða kippa til höfði og öðrum líkamspörtum eins og til að rykkja í gang.

Engin einhlít skýring er til á því hvers vegna fólk byrjar að stama. Ýmsar kenningar eru til en ekkert hefur verið sannað þrátt fyrir miklar rannsóknir.

Erlendar athuganir hafa sýnt að á bilinu 0,7% – 1,0% fólks stami. Það má því reikna með því að á bilinu 1800-2500 Íslendingar stami. Talið er að fjögur af hverjum hundrað börnum byrji að stama en þrjú þeirra hætti því áður en þau komast á fullorðinsár. Flestir byrja að stama á aldrinum 3 til 7 ára og stam er 3 til 4 sinnum algengara hjá körlum en konum.

Hér á landi stendur Málbjörg, félag um stam, fyrir hverskyns vitundarvakningu og viðburðum tengdum stami í tilefni dagsins. Sem dæmi má nefna frumsýningu kvikmyndarinnar When I Stutter í Bíó Paradís árið 2018. Í fyrra var þemað Stam og atvinnulífið og var Margrét Kristmannsdóttir framkvæmdastýra Pfaff meðal frummælenda. Félagið hélt alþjóðlega ráðstefnu um stam í Hveragerði um sumarið sama ár. Í ár bjó félagið til sérstakan stamlaga-lista sem aðgengilegur er á streymisveitunni Spotify. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert