Kirkjuhúsið selt

Kirkjuhúsið á Laugavegi 31 var til sölu.
Kirkjuhúsið á Laugavegi 31 var til sölu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrr í dag fékk ég þær ánægjulegu fréttir að Kirkjumálasjóður hefði selt fasteignina við Laugaveg 31, sem hýst hefur starfsemi þjóðkirkjunnar-Biskupsstofu í tæpa þrjá áratugi. Húsið hefur staðið tómt að undanförnu,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur í færslu á Facebook. 

Hann segir að í tilkynningu frá nýjum eigendum segi að þeir sjái tækifæri í þeirri þróun Laugavegarins að færast meira yfir í göngugötu og hyggjast koma á fjölbreyttri starfsemi í húsinu.

„Ég fagna þessu – og ekki síður hinu, að kaupandinn, sem er fjölskyldufyrirtæki sem ég kann ekki frekari deili á, hyggst færa húsið meira til upprunalegs útlits auk þess sem innra skipulagi verður breytt til að mæta þörfum væntanlegra rekstraraðila hússins. Húsið sé fallegt og vel byggt og hafi alla burði til að verða í lykilhlutverki við að gæða miðborgina og Laugaveginn auknu lífi,“ skrifar Dagur. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann vekur athygli á því, að húsið, sem Marteinn Einarsson hafi byggt af miklum myndarbrag á árunum 1928-1930, hefi jafnan verið talið einn af hornsteinum miðborgarinnar, en það stendur á horni Laugavegs og Vatnsstígs.

„Gert er ráð fyrir að efstu hæðir Laugavegs 31 hýsi áfram almennan skrifstofurekstur en jarðhæð og 2. hæð ásamt stuðningsrýmum í kjallara hýsi verslun, viðburði og þjónustu,“ skrifar borgarstjórinn. 

Í kjölfarið barst eftirfarandi tilkynning frá Fyrirtækjasölunni Suðurveri, og er hún svohljóðandi:

„Kirkjumálasjóður hefur selt fasteignina við Laugaveg 31, sem hýst hefur starfsemi Þjóðkirkjunnar-Biskupsstofu í tæpa þrjá áratugi. Nýir eigendur segjast sjá tækifæri í þeirri þróun Laugavegarins að færast meira yfir í göngugötu og hyggjast koma á fjölbreyttri starfsemi í húsinu.

Húsið, sem Marteinn Einarsson byggði af miklum myndarbrag á árunum 1928-1930, hefur jafnan verið talið einn af hornsteinum miðborgarinnar. Það er staðsett á horni Laugavegs og Vatnsstígs, í miðju skipulagðra göngugatna borgarinnar.

Kaupandinn, sem er fjölskyldufyrirtæki, hyggst færa húsið meira til upprunalegs útlits auk þess sem innra skipulagi verður breytt til að mæta þörfum væntanlegra rekstraraðila hússins. Húsið sé fallegt og vel byggt og hafi alla burði til að verða í lykilhlutverki við að glæða miðborgina og Laugaveginn auknu lífi, í samstarfi við borgar- og skipulagsyfirvöld.

Gert er ráð fyrir að efstu hæðir Laugavegs 31 hýsi áfram almennan skrifstofurekstur en jarðhæð og 2. hæð ásamt stuðningsrýmum í kjallara hýsi verslun, viðburði og þjónustu.

Eignamiðlun sá um söluferli hússins f.h. seljanda en Fyrirtækjasalan Suðurver ásamt BBA//Fjeldco sáu um ráðgjöf til kaupanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert