Mestu stillur í veðrinu í 60 ár

Stillt vetrarkvöld í Borgarnesi.
Stillt vetrarkvöld í Borgarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvenjuhægviðrasamt hefur verið það sem af er októbermánuði. Meðalvindhraði í byggðum landsins hefur ekki verið jafnlítill sömu daga síðan í október 1960. Þetta kemur fram á bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Spár gefa nú í skyn að breytinga kunni að vera að vænta, segir Trausti. Alla vega virðist þær sammála um að lægðir verði ágengari og dýpri heldur en að undanförnu. Þetta rímar við spá Veðurstofunnar sem segir að í dag gangi í austan 13-18 m/s, 18-23 syðst um kvöldið, en hægari vindur verði norðan heiða. Rigning eða slydda um landið SA-vert, annars úrkomulítið. Hiti 2 til 7 stig. Á morgun, föstudag, er spáð austan og norðaustan 13-20 m/s, en heldur hægari NA-lands. Rigning verður, einkum SA-til en úrkomulítið á NV- og V-landi. Hiti verður 2 til 7 stig.

Meðalhiti fyrstu 20 daga októbermánaðar er 6,0 stig í Reykjavík, segir í yfirliti Trausta. Það er 0,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en 0,2 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu ár og raðast í tíunda hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá var 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti 4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 43. sæti (af 145). Hlýjastir voru dagarnir árið 1959, meðalhiti 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti -0,3 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert