Samþykktu tillögu um sölu á hlut í HS veitum

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti í morgun tillögu meirihluta bæjarstjórnar bæjarins um að taka tilboði félags lífeyrissjóða og fjárfesta í rúmlega 15% eignarhlut bæjarins í HS veitum.

Tilboðið var samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta bæjarráðs og var málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Fulltrúar minnihluta greiddu atkvæði á móti.

Áður hafði meirihluti bæjarráðs hafnaði tillögu minnihlutans um að fram færi íbúakosning um málið, að því er kemur fram í fundargerð.

Dregur úr lánsþörf bæjarins

„Niðurstaða söluferlisins er fagnaðarefni. Ljóst er að mjög gott verð hefur fengist fyrir hlutinn og bent er á að með sölunni eignast lífeyrissjóðir (sem eru yfir 90% bjóðenda) hlut bæjarins sem verður þá áfram í eigu almennings. Um minnihlutaeign í HS-Veitum er að ræða og hefur salan engin áhrif á íbúa í Hafnarfirði en verðlagning á raforkudreifingu er bundin ströngum skilyrðum í raforkulögum,“ segir í fundargerðinni, þar sem tillögunni um íbúakosninguna er hafnað.

„Salan dregur verulega úr lánsfjárþörf bæjarins og þar með afborgunum og vaxtagreiðslum til framtíðar. Andvirði sölunnar gefur Hafnarfjarðarbæ jafnframt færi á því að sækja fram af meiri krafti með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og draga úr skaða vegna Covid-19 faraldursins.“

Tilboðið hljóðar upp á 3,5 milljarða króna. Endanleg ákvörðun um söluna verður tekin á fundi bæjarstjórnar í næstu viku. Hafnarfjarðarbær á 15,42% eignarhlut í HS veitum. Meirihluti bæjarstjórnar ákvað í vor að hefja undirbúning að sölu hlutarins en fulltrúar minnihlutans voru á móti.

Ekkert tillit tekið til ríkisstuðnings

Á fundinum í morgun lýstu fulltrúar minnihlutans „furðu á þeirri afstöðu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra að verjandi sé að leggja til sölu á hlut bæjarins í HS Veitum á þessum tímapunkti.“

„Á fundi bæjarráðs í dag liggur fyrir röksemdafærsla fyrir sölunni sem í vantar mikilvæga þætti sem varða hagsmuni bæjarbúa. Ljóst má vera af umræðu um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, bæði í fjölmiðlum og á pólitískum vettvangi, að sterk rök hníga að því að ríkissjóður verði að stíga inn með afgerandi hætti, annað hvort með afar hagstæðum lánum á ríkis- og/eða Seðlabankakjörum eða þá með beinum framlögum til að mæta tekjutapi. Samanburður innan OECD styður þau rök með afgerandi hætti,“ segir m.a. í fundargerðinni.

„Sú greining sem meirihlutinn leggur fram til stuðnings á sölu almannaeignar í grunninnviðum tekur ekkert tillit til þess að þessi ríkisstuðningur sé til umræðu. Því er haldið fram að það felist bein áhætta í því að bærinn eigi áfram hlut sinn í HS Veitum en ekki vikið að því orði hvort áhætta geti falist í því að selja of snemma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert