Skjótari viðbrögð og lyfjameðferð gætu hjálpað

Frá gjörgæsludeild Landspítala.
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítalinn

Færri hafa lagst inn á gjörgæsludeild hérlendis í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins en í fyrstu bylgju, þá hafa einnig færi fallið frá vegna Covid-19. Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar segir erfitt að segja hvað orsaki það en ýmsar ástæður geti legið þar að baki, til dæmis öflugri lyfjameðferð fyrir þá sem á henni þurfa að halda, skjótari viðbrögð heilbrigðiskerfisins og almennari grímunotkun. 

„Það hafa færri farið á gjörgæsludeildina í þessari bylgju og það hafa færri látist í þessari bylgju. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir í málinu. Ég veit svo sem ekki hvernig ég get túlkað það hvað orsakar þetta,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. 

Eru líkur á því að veiran sé eitthvað veikari nú en hún var í vor?

„Það eru vangaveltur um það, hvort þetta sé eitthvað veikara eða hvort smitin séu mildari vegna þess að það er kannski almennari grímunotkun í samanburði við það sem var áður. Það er sennilega eitthvað samhengi á milli þess smitefnis sem þú færð í þig og alvarleika sýkinganna. Svo það er einn möguleiki.“

Beita lyfjum í þriðju bylgju

Nú er notuð sérhæfð veirulyfjameðferð sem og bólgueyðandi lyf sem kann að hafa áhrif til mildunar veikindanna.

Var veirulyfjameðferðin ekki í boði í fyrstu bylgju?

„Við fengum bæði Favipiravir og líka Remdesevír sem var þá í tilraunafasa og var þá bara tilraunalyf. Svo datt þetta allt saman niður hjá okkur þegar við vorum komin með þessi lyf í hendurnar svo við beittum þeim ekki neitt. Við höfum beitt þeim í þessari bylgju,“ segir Már.

„Svo er líka það að við erum náttúrulega fljótari að koma okkur í stellingar. Við vorum með göngudeildina tilbúna núna. Hvað af þessu er nákvæmlega að valda því að gögnin eru eins og þau eru get ég ekki alveg fullyrt um. Svo er líka möguleiki að þetta sé bara tilviljun í tölunum. Þetta virðist samt vera þannig víðar að dánartíðni sé að fara niður.“

Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag eru lífslíkur þeirra sem þurfa að leggjast inn á gjörgæslu í Bretlandi vegna Covid-19 meiri nú en áður var. Þar er sterkari lyfjameðferð helst þakkað fyrir þá þróun.

mbl.is