Starfsemi sem leiddi til hundraða smita óheimil

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðuneytið vekur athygli á því að það hafi ekki heimilað þá starfsemi sem leitt hefur til hundraða smita, þ.e. íþróttir eða heilsurækt þar sem um snertingu eða mikla nálægð er að ræða. Hver og einn verði að ákveða hvort hann vilji ganga skemmra en það sem reglugerðin heimili til að draga úr smithættu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Þar var sérstaklega spurt út í ákvörðun heilbrigðisráðherra um að heimila opnun líkamsræktarstöðva með ströngum takmörkunum. Eins og áður hefur verið greint frá er líkamsræktarstöðvum heimilt að halda úti lokuðum hóptímum þar sem mest 20 mega æfa saman. Þá mega þessir 20 ekki deila æfingabúnaði og tveggja metra reglan þarf að vera tryggð. Sóttvarnalæknir hafði lagt  til að líkamsræktarstöðvar yrðu áfram lokaðar. 

„Tekið skal fram í þessum efnum að hnefaleikastöð, sem helst hefur verið í fréttum vegna fjölda smita, telst til íþróttastarfsemi innan ÍSÍ, en ekki líkamsræktarstöðva. Eins og bent hefur verið á smitast veiran fyrst og fremst þar sem um nálægð eða snertingu er að ræða og það hefur ekki verið heimilað á líkamsræktarstöðvum. Þannig er sú starfsemi sem leitt hefur til umræddra fjölda smita bönnuð samkvæmt reglugerðinni,“ segir í svarinu. 

Margar líkamsræktarstöðvar hafa nýtt sér heimildina en aðrar hafa ákveðið …
Margar líkamsræktarstöðvar hafa nýtt sér heimildina en aðrar hafa ákveðið að hafa áfram lokað, til dæmis Hreyfing og Reebok Fitness. mbl.is/Hari

Jafn öruggir og aðrir

Þar kemur fram að ekki hafi verið rætt við eigendur líkamsræktarstöðva við mótun reglugerðarinnar og ráðherra hafi ekki verið undir þrýstingi þeirra við mótun hennar. 

Telur ráðherra/ráðuneytið að iðkendur líkamsræktarstöðva séu öruggir þegar þeir mæta í þessa lokuðu tíma?  

„Ráðuneytið telur iðkendur sem sækja hóptíma í húsnæðis heilsu-/líkamsræktarstöðva jafn örugga og þá sem sækja sambærilega tíma á öðrum stöðum, enda eru skilyrðin öll þau sömu og sóttvarnalæknir lagði til.“

Í svarinu kemur fram að sú afar takmarkaða heimild sem heilsuræktar-/líkamsræktarstöðvar fái til að halda úti starfsemi byggist á ákvæðum stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf. Það er nánar skýrt hér:

„Crossfit og jóga eru dæmi um hóptíma sem boðið er upp á á heilsuræktar- og líkamsræktarstöðvum ásamt ýmsum öðrum hóptímum þar sem stundaðar eru æfingar án snertingar þar sem hægt er að uppfylla sömu kröfur til sóttvarna og smitgátar og í tilvitnuðum texta í minnisblaði sóttvarnalæknis. Það hefði því verið gegn reglum um jafnræði og meðalhóf að leggja bann við slíkri iðkun inni á heilsuræktar- / líkamsræktarstöðvum sem væri leyfð á öðrum stöðum.

Heimild líkamsræktarstöðva til að hafa húsakynni sín opin er miklum takmörkunum háð og starfsemin sömuleiðis. Þátttakendur í hóptímum þurfa að vera skráðir í tíma, hópar mega ekki deilda búningsaðstöðu, snyrtingu eða inngangi o.s.frv. og sótthreinsa þarf sameiginlega snertifleti á milli tíma. Íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi sem krefst nándar, snertingar eða notkunar gólf-, loft- eða veggfasts sameiginlegs búnaðar og stórra tækja, svo sem í tækjasölum líkams-/heilsuræktarstöðva, er óheimil.“

Líkamsræktarstöðvum eru settar strangar takmarkanir.
Líkamsræktarstöðvum eru settar strangar takmarkanir. mbl.is/Hari

Hver og einn verður að taka ákvörðun

Hvetur [ráðherra] fólk til þess að nýta sér þessa tíma? / Hvetur [ráðherra] fólk jafnvel til þess að halda áfram að forðast hópamyndun og þannig sleppa því að nýta sér þessa 20 manna tíma? 

„Ráðherra hefur hingað til fylgt tillögum sóttvarnalæknis í öllum meginatriðum og gerir það einnig í þeirri reglugerð sem hér um ræðir eins og að framan er rakið. Ráðherra setur með reglugerð ramma um þá starfsemi sem telja má örugga ef grundvallarreglum sóttvarna sem sóttvarnalæknir telur nauðsynlegar er fylgt. Hver og einn verður svo að leggja á það mat fyrir sitt leyti hvort hann vill gera allt sem heimilt er innan ramma gildandi takmarkana eða hvort hann vill ganga skemmra til að draga enn frekar úr smithættu, eins og okkur er öllum í sjálfsvald sett.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert