„Það er komin þreyta í alla“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að samræmi sé á milli sóttvarnayfirvalda og heilbrigðisráðuneytisins. 

Í reglugerð heilbrigðisráðherra sem gefin var út á sunnudag eru heimilaðir hóptímar í líkamsræktarstöðvum, þvert á tilmæli í minnisblaði sóttvarnalæknis. Þórólfur og Alma Möller landlæknir sögðu á upplýsingafundi almannavarna í dag að ákvörðunin hafi valdið ákveðnu uppnámi. Þórólfur sagði meðal annars að sér þætti leitt að verða vitni að þeim óróa sem komið hafi upp og að ein af ástæðum þess sé vafalaust sú að reglugerðirnar séu í mörgum tilvikum óskýrar og í einstaka tilvikum misvísandi. 

Þórólfur var gestur Kastljós í kvöld og sagði þar meðal annars að hann hafi lagt til að líkamsræktarstöðvar yrði áfram lokaðar. Ákveðið ósamræmi hafi verið í tillögunum þar sem ekki var gerður greinarmunur á líkamsræktarstöðvum og annarri íþróttastarfssemi, en hann hafði meðal annars lagt til að íþróttastarfssemi á borð við jóga og CrossFit yrði leyfð, og ráðuneytið síðan jafnað því við annarskonar hópatíma. 

Þórólfur segir að til greina hafi komið að allri starfssemi utan ÍSÍ yrði lokað. Hann segist ekki vita hvers vegna sú tillaga hafi ekki verið í reglugerð ráðherra, en að ákvörðunin sé undir ráðuneytinu komin. 

„Á einhverjum tímapunkti hefði komið að því að ráðuneytið færi ekki að öllum tillögum sem ég kem með og ég hef sagt það lengi að það er ekkert undarlegt þó ráðuneytið geri það,“ sagði Þórólfur. Hann segir þó að eflaust hefðu þurft að fylgja frekari skýringar á þessu misræmi þegar reglugerðin var gefin út. 

„Við erum komin langt í þennan faraldur og það er komin þreyta í alla,“ sagði Þórólfur og bætti við að menn séu að máta sig og metast sín á milli um hvort það séu fleiri kvaðir settar á sig en aðra. Hann bendir á að reglugerð ráðherra sem tók gildi á þriðjudag hafi verið flóknasta útfærsla á reglugerð til þessa í faraldrinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert