Yfir 100 skjálftar í nótt

Kort/Veðurstofa Íslands

Dregið hefur úr jarðskjálftahrinunni á Reykjanesi en þrátt fyrir það hafa yfir 100 skjálftar mælst á svæðinu frá miðnætti. Enginn þeirra er yfir 3 stig að sögn Sigríðar Magneu Óskarsdóttur, jarðvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Hún segir ómögulegt að segja til um þróunina, hvort hrinan lognist út af eða haldi áfram. Í fyrradag, 20. október, klukkan 13:43 varð jarðskjálfti af stærð 5,6 á Núphlíðarhálsi á Reykjanesskaga. Um 2000 eftirskjálftar hafa mælst, þar af um 30 skjálftar yfir 3 að stærð síðan þá. Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að eftirskjálftarnir hafa fundist á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp í Borgarfjörð.

Aukin hætta er á grjóthruni úr bröttum hlíðum á Reykjanesskaga á meðan hrinan stendur, ferðafólk er beðið er að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum. Grjóthrun varð við Djúpavatnsleið, Keili, Trölladyngju og Vatnsskarð í stóra skjálftanum í fyrradag. Þá eru vísbendingar um að sprungur við Krýsuvíkurbjarg hafi gliðnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert