Börn á rúntinum í nótt

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Nokkur mál tengd börnum komu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Um er að ræða þjófnaði, akstur bifreiðar og barn sem var í bíl með foreldri sem ók ótryggðri bifreið undir áhrifum fíkniefna án gildra ökuréttinda.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Seltjarnarnesi í nótt eftir að hafa orðið vitni að því að ökumaðurinn ók upp á kantstein, gaf ekki stefnuljós og var ekki með ökuljós tendruð. 

Ökumaðurinn reyndist vera 15 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Tveir farþegar voru í bifreiðinni og eru þeir 14 og 16 ára. Samkvæmt dagbók lögreglu var málið afgreitt með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för bifreiðar í Háaleitis- og Bústaðahverfi og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og  ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af.  Ökumaðurinn var með barn sitt í bifreiðinni og var það sótt af ættingja.

Síðdegis voru tvær stúlkur staðnar að þjófnaði á fatnaði í verslun í sama hverfi (hverfi 103) og var málið afgreitt með aðkomu foreldra og Barnaverndar.

Á tíunda tímanum var sextán ára piltur staðinn að þjófnaði í verslun á Granda. Foreldrar voru viðstaddir skýrslutöku hjá lögreglu sem sendi tilkynningu um málið til Barnaverndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert