Efling og SSSK ná samningum

Sólveig Anna, Ástráður Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjari og Sara Dögg Svanhildardóttir formaður …
Sólveig Anna, Ástráður Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjari og Sara Dögg Svanhildardóttir formaður SSSK Ljósmynd/Aðsend

Samninganefnd Eflingar-stéttarfélags við Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) undirritaði í dag kjarasamning um kjör félagsmanna Eflingar hjá einkareknum leik- og grunnskólum á félagssvæði Eflingar.

Í samningnum er kveðið á um að kjör félagsmanna taki mið af samningi Eflingar við Reykjavíkurborg líkt og Efling hefur frá upphafi viðræðna krafist. Engar af skerðingum sem SSSK höfðu lagt til í viðræðunum eru í samningnum,“ segir í tilkynningu frá Eflingu.

Fullur sigur segja forsvarsmenn Eflingar

Gengist var við þeirri kröfu Eflingar að fullur tvíhliða samningur um kjör félagsmanna Eflingar sem starfa hjá einkareknum leik- og grunnskólum. Í tilkynningu Eflingar um undirritun samningsins er lýst yfir fullum sigri í langri deilu. 

„Er því öllum kröfum Eflingar mætt en kjaradeila Eflingar og SSSK hefur staðið allt frá því samdist við Reykjavíkurborg þann 10. mars 2020. Efling vísaði deilunni til ríkissáttasemjara í maí. Nálægt 300 félagsmenn Eflingar starfa hjá aðildarfyrirtækjum SSSK.“

Atkvæðagreiðsla um samninginn fer fram í kjölfar kynningar á honum á næstunni.

SSSK telja sínum markmiðum náð

Í samtali við mbl.is segir Sara Dögg Svanhildardóttir formaður stjórnar SSSK markmiðum sínum náð. „Sjálfstæðir skólar eru mjög ánægð með að samningar hafi tekist. Við teljum að það sem skiptir máli að komist hafi í samninginn er að tekið sé tillit til þess í hvaða sveitarfélagi hver skóli starfar.“

Þá bætir Sara við að markmið þeirra hafi alltaf verið að halda starfsfólki sjálfstæðra skóla á sömu kjöru og forsendum og starfsmenn annarra leikskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert