„Þegar barn segist ekki vilja lifa lengur er eineltið orðið dauðans alvara“

mbl.is/Hari

Sigríður Elín Ásmundsóttir segir í færslu á Facebook í gær frá grófu einelti sem sonur hennar í 6. bekk í Sjálandsskóla hafi orðið fyrir. Sigríður segist hafa áttað sig á alvarleika málsins þegar hún heyrði son sinn tala við vin sinn í símann og segjast vilja deyja.

„Það var svo kvöld eitt fyrir stuttu að ég heyrði að hann var að tala við vin sinn sem býr úti á landi; var að segja honum frá strákunum í bekknum og hvað þeir séu grimmir við sig. Ég legg við hlustir og þegar ég heyri barnið mitt segja, „mér líður svo illa í skólanum að mig langar að deyja“ brestur hjartað mitt.“

Sigríður kallar eftir opinni umræðu um einelti í grunnskólum og veltir því upp hvort að ástandið sem nú ríkir vegna Covid-19 faraldursins gæti verið að bæta gráu ofan á svart. 

Grófar hótanir og árásir

Meðal hótanna sem drengurinn hefur fengið er að gerendur myndu drepa hundinn hans. Þá segir í færslu Sigríðar að skólatösku hans hafi verið hent í ruslatunnu á fótboltaæfingu og að hann hafi mátt labba heim á sokkunum eftir að skónum hans hafi verið hent yfir háa girðingu eftir æfingu.

Sigríður segist einnig hafa mátt sækja strákinn sinn blóðugan í skólann.

Sigríður segir í samtalið við mbl.is að skólayfirvöld í Sjálandsskóla hafa reynt að taka á málinu en skorta úrræði og verkfæri til þess. Inngrip af hálfu skólans hafi lítið haft að segja.

Fögnuðu þegar drengurinn hætti í skólanum 

Á endanum skipti drengurinn um skóla, eftir að hafa gefið upp alla von um að ástandið myndi lagast. Sigríður segir það tregafullt að gefa slíkt eftir gerendum eineltis, að þolandinn þurfi að flýja skólann sinn og gerendur halda áfram.

Þá hafi skólastjóri tilkynnt bekknum að drengurinn hafi hætt í skólanum, að sökum eineltis og fagnaðarlæti brotist úr hjá hópi gerendanna.

„Það er eins og ég segi, fokk ofbeldi og fokk einelti, við þurfum líka að ræða það því að börnin fela þetta og ef við stöndum ekki með þeim, hver þá. Hvað eru mörg börn þarna úti sem eru að upplifa einelti sem eiga foreldra sem annað hvort sjá það ekki, vita ekki af því eða hafa ekki burði í að berjast fyrir þau?“ sagði Sigríður í samtali við mbl.is.

Lesa má færslu Sigríðar í heild sinni hér: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert