Halda þarf smitstuðli marktækt undir 1

Fólk bíður eftir því að komast í sýnatöku.
Fólk bíður eftir því að komast í sýnatöku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smitstuðullinn vegna kórónuveirunnar hefur farið lækkandi og árangur aðgerða er sýnilegur. Grundvallaratriði er að lækka smitstuðulinn marktækt undir 1 og halda honum þannig. Ef hann fer yfir 1, er til staðar ástand þar sem smit  geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt.

Þetta kemur fram í nýju spálíkani Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala. Þar kemur einnig fram að smitstuðullinn utan sóttkvíar er áætlaður 0,5. Bent er á óvissuna í matinu og að spábilið nær upp fyrir 1. Möguleiki á veldisvexti er enn fyrir hendi. 

Hlutfall greininga í sóttkví hefur að jafnaði haldist yfir 50% undanfarið. Smitstuðullinn innan sóttkvíar á Íslandi er áætlaður 0,6.

Gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og að 50% smita greinist hjá þeim sem eru þegar í sóttkví. Gera má jafnframt ráð fyrir að það taki til enda nóvember (6 vikur) að ná smitum í lágar tölur.

Í niðurstöðu kemur fram að óvissa sé enn til staðar. „Með öðrum orðum, efri mörk spábilsins ná enn yfir 1. Það er grundvallaratriði að lækka smitstuðulinn marktækt undir 1 og halda honum þannig. Ef smitstuðull fer yfir 1, er til staðar ástand þar sem smit  geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt.“

Þar kemur einnig fram að áhrif á smitstuðulinn sé okkar hegðun og bent á að þeir sem smitast byrja að smita áður en einkenni koma fram. Því geti hver sem er lent í því að smita aðra.

„En ef þátttaka í aðgerðum er góð, fólk heldur fjarlægð, vinnur heima (þeir sem geta) og passar upp á smitvarnir þá tekst þetta. Jafnvel fyrir fyrsta sunnudag í aðventu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert