Kýldur, hótað lífláti og rændur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður leitaði aðstoðar á bráðamóttöku í gærkvöldi eftir líkamsárás en ráðist var á hann og honum hótað fyrr um kvöldið. Að sögn mannsins hafði hann verið að aka manni sem hann þekkir ekki mikið. Farþeginn kýldi hann í andlitið, krafði hann um peninga, hótaði honum lífláti og stal síðan rafmagnshlaupahjóli sem var í aftursæti bifreiðarinnar.  

Lögreglan handtók mann í Mosfellsbæ á tíunda tímanum í gærkvöldi sem er grunaður um húsbrot, líkamsárás, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum en tilkynnt hafði verið til lögreglu um yfirstandandi innbrot. Maðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu.

Seint í gærkvöldi var tilkynnt til lögreglu um að trampólín hafi fokið á stofuglugga íbúðar í Grafarholtinu og rúðan brotnað. 

Ökumaður bifreiðar sem varð valdur að umferðaróhappi í Hafnarfirði í gærkvöldi er vistaður í fangageymslum lögreglunnar en hann er grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Nokkrir ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir í umferðinni sem eru grunaðir um akstur bifreiða undir áhrifum vímuefna. Í einhverjum tilvikum eru viðkomandi einnig án ökuréttinda. 

Maður sem var handtekinn í Hafnarfirðinum um kvöldmatarleytið gistir fangageymslur lögreglunnar en hann er grunaður um hylmingu. 

Eins verður skýrsla tekin af ölvaðri konu sem neitaði að greiða reikning á veitingastað í Háleitis- og Bústaðahverfi síðdegis í gær.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert