Segja nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að gæta jafnræðis

Hárgreiðslustofur eru nú lokaðar.
Hárgreiðslustofur eru nú lokaðar. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra snyrtifræðinga, Félag hársnyrtisveina, Meistarafélag hársnyrta og Félag hársnyrtimeistara á Norðurlandi munu ekki láta sitt eftir liggja í baráttunni gegn kórónuveirunni. Félögin eru sammála um mikilvægi þess að sýna ábyrgð á þessum tímum og hlíta í hvívetna tilmælum sóttvarnayfirvalda. 

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá félögunum. 

Í reglu­gerð heil­brigðisráðherra sem gef­in var út á sunnu­dag eru heim­ilaðir hóp­tím­ar í lík­ams­rækt­ar­stöðvum, þvert á til­mæli í minn­is­blaði sótt­varna­lækn­is. Þórólf­ur og Alma Möller land­lækn­ir sögðu á upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna í gær að ákvörðunin hafi valdið ákveðnu upp­námi, en þeir sem mega áfram ekki veita þjónustu hafa verið gagnrýnir á þá ákvörðun að leyfa hópatíma hjá líkamsræktarstöðvum. 

Í yfirlýsingu félaganna segir að samstaða sé nauðsynleg til að bregðast við vánni og tryggja heilsu og öryggi borgara. 

„Félögin munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum en árétta þó nauðsyn þess að stjórnvöld tryggi með mótvægisaðgerðum sínum rekstrargrundvöll fyrirtækjanna og dragi úr tjóni einstakra atvinnurekenda vegna umræddra lögbundinna lokana og tekjufalls. Ennfremur er nauðsynlegt að gæta jafnræðis og tryggja að allir sitji við sama borð sem veita sambærilega þjónustu,“ segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert