Skúli bar sigur úr býtum

Sigmar Vilhjálmsson í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2018.
Sigmar Vilhjálmsson í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2018. mbl.is/Arnþór

Kröfu Sigmars Vilhjálmssonar athafnamanns um ógildingu á sölu Stemmu hf. á tveimur lóðum á Hvolsvelli var hafnað í Landsrétti í dag. Dómurinn batt þar með enda á langvinnar deilur Sigmars við Skúla Gunnar Sigfússon, oft kenndan við skyndibitastaðinn Subway. 

Skúli hafði komið í kring sölu á lóðunum tveimur árið 2016 og voru Sigmar og hann þá báðir í stjórn Stemmu. Sigmar var mótfallinn sölunni og höfðaði mál og krafðist þess að ákvörðun um söluna yrði gerð ógild, þegar sem hún hefði verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa og félagsins.

Héraðsdómur féllst á sjónarmið Sigmars og ógilti ákvörðun um sölu beggja lóðanna en í fyrstu umferð í Landsrétti var aðeins önnur salan dæmd ógild. Þeirri ákvörðun var áfrýjað til Hæstaréttar, sem vísaði málinu aftur til Landsréttar, sem nú hefur komist að þessari nýju niðurstöðu, alfarið Skúla í hag.

„Barátta við samlokusala“ 

Skúli og Sigmar voru viðskiptafélagar um tíma og ætluðu að setja upp ferðaþjónustu við Hvolsvöll, sem átti að snúast um jarðhræringar og náttúruvá. Samstarfið hófst 2013 en það fór að síga á ógæfuhliðina í samskiptunum árið 2014 og árið 2015 var Sigmar kominn út úr verkefninu, en enn hluthafi í Stemmu. 2016 voru báðar lóðirnar síðan seldar gegn vilja Sigmars, en með meirihluta hluthafa.

Skúli Gunnar Sigfússon í Subway.
Skúli Gunnar Sigfússon í Subway. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við flutning málsins hefur verið fjallað opinskátt um málavöxtu. „Ég ætlaði aldrei að vinna með hon­um í fast­eigna­hlut­an­um,“ sagði Skúli um Sigmar þegar fjallað var um ákvörðun hans um að halda honum utan við fasteignaviðskiptin. „Hann hef­ur aldrei byggt dúfna­kofa á æv­inni. Hann hef­ur enga reynslu, enga pen­inga og eng­ar teng­ing­ar.“

Sigmar tjáði sig fyrst opinberlega um málið vorið 2018: „Á morg­un mun ég mæta í Héraðsdóm Reykja­vík­ur eft­ir 3ja ára bar­áttu við sam­loku­sala hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert