Tryggir viðskiptasambönd Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Haraldur Jónasson/Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að sú vinna sem hafi verið unnim til að koma Íslandi af gráa listanum sé gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf. Fyrirtæki sem hafi ætlað að stofna til viðskiptasambanda erlendis hafi sum hver lent á vegg vegna veru Íslands á listanum. 

Mikilvægt að lenda ekki á veggjum 

„Fyrst og fremst er þetta mikilvægt að við séum með öflugar varnir en að auki er þetta afar mikilvægt fyrir atvinnulífið. Að það lendi ekki á veggjum vegna þess að við séum listuð með þessum hætti. Þetta mun auðvelda viðskiptasambönd erlendis. En einnig erum við núna búin að uppfylla skilyrðin betur en margar aðrar þjóðir,“ segir Áslaug. 

Hún segir að helsta breytingin frá því sem áður var hafi snúið að skýrari verkferlum innan stjórnsýslunnar og aukinni áherslu á þennan málaflokk og mikilvægi hans. Hún segir að vinnu við málaflokkinn sé hvergi nærri lokið og von sé á frekari laga og reglugerðarbreytingum til þess að uppfylla skilyrði FATF til framtíðar. 

Vera Íslands á listanum kom til eftir fjórðu úttekt FATF sem berst gegn alþjóðlegu peningaþvætti og hryðjuverkum. Hún er enn yfirstandandi og er Ísland nú komið af listanum eftir þá vinnu sem hefur farið fram. 

Undraverður árangur á skömmum tíma 

Teitur Már Sveinsson, formaður stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka segir að strax hafi verið brugðist við tilmælum FATF frá því í apríl árið 2017. „Það náðist undraverðum árangur á mjög skömmum tíma. Þetta er ekki bara frá því aðgerðaráætlun var samþykkt í október 2019 heldur fer vinna af stað um leið og niðurstöðurnar lágu fyrir, “ segir Teitur. 

Tilkynningar færst í vöxt á liðnum árum

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að tilkynningar fyrirtækja um peningaþvætti hafi færst mjög í vöxt á undanförnum árum. „Stóra breytingin með þessari vinnu er sú að stjórnvöld eru að taka svo vel á móti þeim. Það skiptir svo miklu máli þegar þú sendir tilkynningu að það sé einhver til að taka á móti þeim,“ segir Katrín. 

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir.

Hún segir að í flestum tilfellum sé um að ræða eðlilegar skýringar eftir að tilkynnt sé um grun um peningaþvætti en mikilvægt sé að skoða tilvikin. Hún segir að regluverk í kringum fjármálafyrirtæki hafi verið sterkt og það hafi ekki verið ástæða veru Íslands á gráa listanum. En við þekkjum kannski best hvar hætturnar liggja og getum því látið stjórnvöld vita,“ segir Katrín. 

Hún segir að fyrirtækin í landinu muni gera sitt besta við að tilkynna grun um peningaþvætti. Hægt er að tilkynna grun til skrifstofu fjármálagreininga hjá lögreglu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert