„Vorum betur í stakk búin“

Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómalækninga. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

19 eru nú inniliggjandi á Landspítala vegna kórónuveirunnar. Þar af eru fjórir á gjörgæslu. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir álagið á spítalanum hafa farið minnkandi í takt við fækkun smita, en að í ljós eigi eftir að koma hvort að smit sem kom upp á Landakoti í gær eigi eftir að hafa áhrif. 

Greint var frá því í morgun að kór­ónauveiru­smit hafi greinst hjá nokkr­um starfs­mönn­um og ein­um sjúk­lingi á öldrun­ar­deild á Landa­kots­spít­ala. Anna Sigrún Bald­urs­dótt­ir aðstoðarmaður for­stjóra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að tveim­ur deild­um af fjór­um hafa verið lokað og að verið sé að skima alla starfs­menn og stór­an hluta sjúk­linga. 

Már segir að nokkuð hafi dregið úr álagi á Landspítalanum vegna veirunnar.

„Hins vegar kom upp þetta smit á Landakoti og það setur kannski svona strik í reikninginn. Eins og hefur komið fram er farið að draga úr tíðni smita, það er talsvert um smit enn þá en það er að draga úr því og við höfum í rauninni séð það líka á tölunum inni á spítalanum, það hefur fækkað. En svo eru þessi viðburðir eins og við erum að glíma við á Landakoti ófyrirséðir, maður veit aldrei hvað þeir verða umfangsmiklir. Aldraðir eru sá hópur sem hafa staðið hvað höllustum fæti gagnvart afleiðingum þessarar sýkingar, svo það væri óvarlegt að gera ekki ráð fyrir neinum innlögnum. En þetta er atburðarrás sem hófst í gær og við erum núna að reyna að kanna umfangið á þessu,“ segir Már. 

Spítalinn betur í stakk búinn 

Þegar álagið var sem mest á Landspítalanum voru 27 sjúklingar inniliggjandi með Covid-19 sýkingu, en innlagnir voru talsvert fleiri í fyrstu bylgju faraldursins síðasta vetur. Már segir að ýmsar mögulegar skýringar séu á þessu. 

„Við lærðum mikið í vor og nú gátum við bara brugðist við með aukningu á starfsemi göngudeildarinnar mjög snögglega. Ég held að við höfum verið betur í stakk búin núna en í vetur. Síðan eru fleiri þættir, eins og undanfarnar vikur hefur verið aukin notkun gríma, bæði hefur verið grímuskylda á spítalanum og síðan hefur notkun í samfélaginu aukist. Svo hafa öldrunarstofnanir verið mjög duglegar að standa vörð um sína vistmenn. Það hefur komið upp smit en það hefur verið brugðist við því og smiti haldið í skefjum eins og dæmin sanna. Það hefur verið mjög vel að því staðið finnst mér,“ segir Már. 

Már segir að þau meðferðarúrræði sem spítalinn búi nú yfir kunni einnig að hafa áhrif.  

„Við höfum verið að nota favipiravir og eigum talsvert að meðferðarskömmtun. Við höfum notað það bæði á öldrunarstofnunum, fyrir fólk sem kemur til okkar á göngudeildina og eins þá sem hafa þurft á innlögn að halda en ekki súrefni.  Síðan fyrir þá sem eru veikari höfum við verið að nota dexamethasone, með eða án remdesivir. Hvort að það sé ein skýring á því að það hefur gengið betur hjá okkur kann að vera, þetta er held ég sambland af öllum þessum þáttum,“ segir Már.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert