Á barnum í 97 ár

Á Rauða ljóninu Hafsteinn Egilsson og Þráinn Björn Sverrisson hafa …
Á Rauða ljóninu Hafsteinn Egilsson og Þráinn Björn Sverrisson hafa lengi unnið saman. Ljósmynd/Erling Aðalsteinsson

Þráinn Björn Sverrisson hefur starfað sem þjónn í um 45 ár, en meistari hans var Gunnar Stefánsson í Grillinu á Hótel Sögu. Þar var hann meðal annars undir handleiðslu Hafsteins Egilssonar, sem byrjaði 1968, og allt bendir til þess að þeir loki hringnum saman á Rauða ljóninu á Seltjarnarnesi.

Aðalsmerki hvers þjóns er fáguð framkoma, kurteisi og að sjálfsögðu þjónustulund. Þráinn er ekki algengt heiti en að minnsta kosti þrír með því nafni hafa gert starf í veitingahúsum að lífsstarfi sínu og allir eru prýddir fyrrnefndum kostum. Þeir eru Þráinn Kristjánsson, sem gjarnan hefur verið kenndur við The Round Table í Winnipeg í Manitoba í Kanada (sonur hans Kristján tók við rekstrinum fyrir nokkrum árum og breytti nafni staðarins í Brazen Hall Kitchen & Brewery), Þráinn Freyr Vigfússon, þjálfari kokkalandsliðsins kenndur við veitingastaðina Sumac og ÓX, og Þráinn Sverrisson.

Nágranni Þráins í Kópavogi kom honum á bragðið. „Valur Jónsson var þjónn á Mímisbarnum og átti heima í sama húsi og ég,“ rifjar hann upp. „Hann var alltaf flott klæddur, fínn í tauinu. Mikill séntilmaður, bar sig vel og heilsaði alltaf með bros á vör. Kurteisin uppmáluð. Góð fyrirmynd. Ég heillaðist af framkomu hans og ákvað að fara í kokkinn og þjóninn. Ég tók þjóninn á undan og þar við sat. Ekki varð aftur snúið. Þetta var svo gaman og starfið hefur verið skemmtilegt alla tíð.“

Ekki verður beint sagt að starf á veitingastöðum sé allra, allra síst stöðug vinna á kvöldin og um helgar, en Þráinn segir að kvöldvinnan hafi alla tíð átt vel við sig. „Hún hefur aldrei truflað mig en vinnan var ekki fjölskylduvæn, þegar ég vann langt fram á nætur.“

Komið víða við

Þráinn hefur komið víða við á löngum ferli. Hann byrjaði að læra í Grillinu á Hótel Sögu 1975, var um hríð á Broadway í Mjóddinni áður en hann fór aftur á Sögu, Holiday Inn og aftur á Sögu, vann meðal annars á Café Óperu og Kaffi Reykjavík og hefur unnið hjá og með Hafsteini á Rauða ljóninu undanfarin tæp níu ár. „Vinnan snýst um að gefa af sér, þjóna fólki og gera það vel, vera vandvirkur,“ segir Þráinn yfirvegaður. „Starfið er gefandi og það hefur mikið að segja.“ Lengst af hefur Þráinn unnið á barnum en hann segir ekki síður skemmtilegt að þjóna fólki til borðs. Hann segist eiga góðar minningar frá öllum stöðum en að öðrum ólöstuðum standi Hótel Saga upp úr. „Vinnan var svo fjölbreytt og þar kynntist ég helstu skemmtikröftum þjóðarinnar, þar sem Raggi Bjarna, sá öðlingur, fór fremstur. Það var líka gaman að taka þátt í öllum stórviðburðunum á Broadway með Ólaf Laufdal í hásætinu.“

Félagarnir Hafsteinn og Þráinn hafa lengi unnið saman og Þráinn ber vini sínum sérlega vel söguna. „Við náum vel saman, skiljum hvor annan vel og hann er algjör ljúflingur, mikill höfðingi og vinur vina sinna,“ segir Þráinn. „Við höfum verið á bak við barinn lengur en elstu menn muna, erum með tæplega 100 ár í samanlögðum starfsaldri og höfum oft gantast með það að við ættum að kunna vel til verka.“

Þeir eru báðir á sjötugsaldri og Þráinn segir að vissulega styttist í starfslok þótt ekkert sé ákveðið í því efni. „Enginn veit sína ævina og allt það en ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að skipta um starfsvettvang,“ segir Þráinn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »