Andlát: Jakob Jakobsson fiskifræðingur

Jakob Jakobsson
Jakob Jakobsson

Jakob Jakobsson, fiskifræðingur og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, lést á Landspítalanum 22. október, 89 ára gamall.

Jakob fæddist 28. júní 1931 í Neskaupstað. Foreldrar hans voru Sólveig Ásmundsdóttir húsmóðir og Jakob Jakobsson skipstjóri. Hann varð stúdent frá MR 1952 og lauk B.Sc. (Hons.) prófi í fiskifræði og stærðfræði frá Háskólanum í Glasgow 1956.

Jakob hóf störf sem fiskifræðingur hjá fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands, síðar Hafrannsóknastofnun, árið 1956. Hann var aðstoðarforstjóri stofnunarinnar 1975-1984 og forstjóri 1984-1998.

Jakob varð snemma þekktur fyrir síldarrannsóknir sínar enda helsti sérfræðingur þjóðarinnar á því sviði. Hrun síldarstofnsins í lok 7. áratugar 20. aldar breytti viðhorfum hans á margan hátt, að eigin sögn. Undir hans forystu efldist Hafrannsóknastofnun og gegndi æ veigameira hlutverki með tilkomu kvótakerfisins.

Jakob varð prófessor við Háskóla Íslands og gegndi þeirri stöðu í nokkur ár eftir að hann hætti sem forstjóri. Einnig tók hann aftur til við síldarrannsóknir af auknum krafti. Hann tók mikinn þátt í alþjóðasamstarfi um fiskveiðar og var m.a. varaforseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins 1985-1988 og forseti þess 1988-1991.

Jakob skrifaði fjölda greina um fiskifræði og veiðarfærarannsóknir og hélt marga fyrirlestra innan lands og utan. Hann hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1965 og stórriddarakrossi 1986. Jakob var félagi í Vísindafélagi Íslendinga og hlaut æðstu viðurkenningu Glasgow-háskóla fyrir íþróttaafrek.

Jakob var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jóhanna Gunnbjörnsdóttir húsmóðir, (f. 1938, d. 1974). Þau eignuðust þrjú börn, Sólveigu (f. 1958), Odd (f. 1961) og Auðbjörgu (f. 1966). Eftirlifandi eiginkona Jakobs er Margrét E. Jónsdóttir (f. 1940), fyrrverandi fréttamaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »