Fjögur ungmenni flutt á sjúkrahús

Bifreið var ekið  yfir gatnamót gegn rauðu ljósi á tólfta tímanum í gærkvöldi og ekið inn í hlið bifreiðar sem ekið var um gatnamótin. Fjögur ungmenni voru í bifreið tjónþola, öll undir lögaldri. Þeim var öllum ekið á bráðamóttöku Landspítalans og forráðamönnum tilkynnt slysið.

Ekki er vitað um meiðsl að því er segir í dagbók lögreglunnar en slysið varð í Kópavoginum.  Lögregla hefur tilkynnt málið til Barnaverndar. Ljósastaur skemmdist einnig við óhappið og hallast en ekki talin ástæða til viðgerða strax. Báðar bifreiðar fluttar af vettvangi með Króki.

Á öðrum tímanum í nótt stöðvaði lögreglan tvær bifreiðar í Háaleitis- og Bústaðahverfi (hverfi 108) þar sem ökumennirnir eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Í öðru tilvikinu var um 17 ára gamla stúlku að ræða en hún var einnig með fíkniefni á sér. Á þriðja tímanum var för ökumanns sem grunaður er um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn stöðvaður í Mosfellsbæ. Ölvaður ökumaður var síðan stöðvaður í miðborginni á fjórða tímanum í nótt.

mbl.is