Fjöldinn kom ekki á óvart

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fjöldi nýrra smita innanlands hafi ekki komið á óvart vegna hópsmitsins sem kom upp á Landakoti í gærkvöldi. Tæplega 30 ný innanlandssmit má rekja til Landakots en alls voru 76 ný smit innanlands í gær. 

Hann segir mjög jákvætt að hátt hlutfall þeirra sem greindust, 79%, var í sóttkví. „Við höfum bent á að þetta er ekki bara bein lína niður heldur munum við fá einhverjar línur upp og niður. Vegna þess hve margir voru í sóttkví tekst vonandi að ná utan um þetta hratt og fljótt. En ég held að það sé nokkuð ljóst að við eigum eftir að fá fleiri greind tilfelli í kringum þetta hópsmit. Að þetta sé ekki búið,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir að um afmörkuð hópsmit sé að ræða og áfram þurfi að hamra á og skerpa á þeim reglum sem séu í gildi. Að biðja fólk sem er veikt eða með einhver einkenni sem benda til að það sé með Covid að láta athuga með sig. Eins að skerpa á öllum sóttvarnareglum og umgengni milli einstaklinga. „Það verða allir að passa upp á þessar grunnreglur varðandi sóttvarnir því um leið og fólk slakar á þeim geta tilvik sem þessi komið upp,“ segir Þórólfur.

Hann segir að tvöföld skimun við landamæri og sóttkví við komuna til landsins hafi sannað gildi sitt að undanförnu en tæplega 20 smit greindust um borð í einni flugvél sem kom hingað til lands nýverið frá Póllandi. Núverandi fyrirkomulag gildir til 1. desember en Þórólfur bendir á að nú eru þær reglur sem gilda á landamærum Íslands sennilega með þeim vægustu í Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina