„Heiftin var ólýsanleg“

Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.
Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Colorbox

Móðir sem rætt hefur mál dóttur sinnar, sem er á einhverfurófi, í nokkur skipti í Morgunblaðinu, síðast í sumar, hefur verið tilkynnt til barnaverndarnefndar. Það er BUGL sem er á bak við tilkynninguna en móðirin hefur átt í deilum við deildina vegna þjónustu sem hún segir dóttur sína eiga rétt á en fái ekki. Stuttlega var fjallað um þetta á mbl.is í morgun en hér er ítarlegri frétt um málið.

Dóttirin á ekki við hegðunarvandamál að stríða en er hlédræg og félagsfælin. Móðirin hefur áður lýst því að slík börn virðist falla milli skips og bryggju í kerfinu. Dótturinni hefur alla tíð gengið vel í skóla, að sögn móðurinnar, en fékk ekki að ljúka grunnskólaprófi í vor vegna skorts á kennslu í Varmárskóla í Mosfellsbæ, svo sem rakið hefur verið í Morgunblaðinu.

Nokkru síðar fékk móðirin afrit af tilkynningunni á fundi með barnaverndarnefnd. „Þetta voru tvö A4-blöð uppfull af rangfærslum, rógburði og ásökunum í minn garð. Á öllum þessum endalausu fundum með BUGL hafði aldrei verið minnst á neitt af þessu, ekki einu orði,“ segir hún.

Þegar móðirin leitaði skýringa hjá BUGL fékk hún þau svör að þetta væru alvanaleg vinnubrögð hjá deildinni.

Í samtali við Morgunblaðið kveðst móðirin ítrekað hafa reynt að ræða efni tilkynningarinnar við starfsmenn BUGL, meðal annars á fundi með meðferðarfræðingi í haust. Meðferðarfræðingurinn kvaðst hins vegar ekki mega ræða téð mál við móðurina og sótti tvo yfirmenn.

„Þá voru þær alveg öskureiðar og heiftin var slík að það er bara ólýsanlegt. Þetta var svo yfirgengileg hegðun og framkoma hjá þessum yfirmönnum að undrun var eiginlega sú tilfinning sem var öllu yfirsterkari. Ég var borin ýmsum sökum og loks rekin út með offorsi. Mér var hótað öllu illu, meðal annars að kallað yrði á lögreglu. Þegar út var komið þá sagði ég við þær að þetta myndi hafa eftirmála. Að framkoma sem þessi og svona aðferðir kölluðust gaslýsing og óviðunandi að geðheilbrigðistarfsfólk beitti slíkum aðferðum. Svo bara fór ég.“

Nánar er fjallað um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert