Katrín í þriðja sæti eftir fyrsta dag

Eftir fyrsta dag heimsleikanna í crossfit situr Katrín Tanja Davíðsdóttir í þriðja sæti á eftir hinni 19 ára gömlu Haley Adams frá Bandaríkjunum og Ástralanum Tiu-Clair Toomey, sem vann þrjá af þeim fimm viðburðum sem fóru fram í gær.

Katrín Tanja vann síðasta viðburð dagsins, þar sem keppendur þurftu að hlaupa um tíu kílómetra leið yfir hæðótt og torfarið landslag. Katrín kláraði áskorunina á einum klukkutíma og 53 sekúndum, rúmri mínútu á undan næsta keppanda.

Leikarnir fara fram í Aromas í Kaliforníu, en Katrín er eini íslenski keppandinn sem komst í gegn um fyrsta niðurskurðinn fyrr í haust.

Í karlaflokki hefur Bandaríkjamaðurinn Mathew Fraser töluverða forustu, en hann sigraði í fjórum viðburðum í gær og lenti í öðru sæti í þeim fimmta.

Annar dagur af þremur hefst í kvöld, en leikunum lýkur á sunnudaginn. Hægt verður að fylgjast með þeim hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert