Mikil aukning í heimsóknum á 112.is

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikil aukning hefur verið í heimsóknum á vef Neyðarlínunnar, 112.is, eftir að síðunni var breytt í upplýsingatorg fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur um allt sem við kemur ofbeldi. 

Frá 15. október hefur verið hægt að hafa samband við Neyðarlínuna í gegnum netspjall. Þá var einnig hrint af stað vitundarvakningu þar sem fólk er hvatt til að hafa samband ef minnsti grunur vaknar um ofbeldi. Dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra styrkja verkefnið. 

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir að fyrsta vika verkefnisins hafi farið vel af stað.  

„Þetta hefur reynst vel. Það hafa verið gífurlega margar heimsóknir á vefinn okkar og margar flettingar svo þessi vitundarvakning og þessi athygli að þessu hefur gengið prýðilega. Það hefur verið einhver notkun á netspjallinu en sem betur fer ekki gífurlega mikil, “ segir Tómas. 

„Við tökum við allskonar erindum og símtölum, hvort sem það er í gegnum sms eða netspjallið. Þetta er bara enn önnur leið til að ná sambandi við neyðarlínuna og það virðist ganga prýðilega. Það er enn þá ekki mikið viðbót við annað sem við gerum,“ segir Tómas. 

Til stendur að þýða síðuna 112.is á ensku og pólsku auk þess sem bætt verður við grein­ing­ar­tóli sem hjálp­ar fólki að átta sig á hvort um of­beldi sé að ræða og það leitt beint að viðeig­andi úrræðum. 

Tómas segir mikilvægt að einstaklingar í ofbeldissamböndum hafi aðgang að upplýsingum um hvert þeir geti leitað eftir aðstoð. 

„Vitundarvakningin felst aðallega í því að fólk átti sig á því ef það er í ofbeldissambandi og geti leitað sér úrræða, það þarf ekki endilega að hringja í 112 og fá blikkandi ljós á staðinn heldur snýst þetta oft um að leita sér stuðnings og fá aðstoð frá til dæmis Stígamótum, Kvennaathvarfinu, Bjarkahlíð og þessum úrræðum sem eru til staðar. Fólk er oft í mismunandi aðstöðu og nú er þessi eini staður sem fólk getur fengið upplýsingar um þessa flóru aðstoðarúrræða sem er til í samfélaginu,“ segir Tómas. 

Vitundarvakningin hefur verið auglýst víða, meðal annars í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Tómas segist vona að skilaboðin skili sér til þeirra sem þurfi á þeim að halda. 

„Þegar þú lendir í einhverju ertu ekki endilega búin að kynna þér fyrirfram hvaða úrræði eru til og þá er mikilvægt að það sé aðgengilegt á einum stað. Það er aðalpunkturinn með þessu, það á ekki að draga frá þessum úrræðum sem eru til heldur að tryggja að þau séu aðgengileg. Flest göngum við ef til vill í gegnum lífið og höldum að það muni aldrei nokkur hlutur koma fyrir okkur. Svo bara gerist það allt í einu,“ segir Tómas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert