Smit í hjúkrunarheimili á Eyrarbakka

Tvö smit komu upp á Hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í …
Tvö smit komu upp á Hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í gærkvöldi. mbl.is/Sigurður Bogi

Kórónuveirusmit kom upp á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í gærkvöldi. Tveir heimilismenn greindust með jákvætt smit, en annar þeirra var nýkominn af Landakoti.

Allir heimilismenn á Sólvöllum fara nú í einangrun og starfsfólk heimilisins fer í skimun. Á Sólvöllum eru 17 heimilismenn og 24 starfsmenn. Aðstandendur voru einnig látnir vita.

Jóhanna Harðardóttir, hjúkrunarfræðingur á heimilinu, segir að enginn grunur hafi verið á smiti þegar viðkomandi kom inn á heimilið, og hafi hann því ekki verið í sóttkví.

Einstaklingurinn var þá sendur í próf í kjölfar hópsmits á Landakoti, en þar hafa komið upp smit hjá 16 sjúklingum og tíu starfsmönnum.

„Við finnum fyrir miklum stuðningi. Það eru allir boðnir og búnir að hjálpa,“ segir Jóhanna. „Það er engin reiði og engar ásakanir. Þetta getur alltaf komið fyrir.“

Jóhanna segir að starfsfólk hafi brugðist hratt við og haft samband við smitvarnateymi Suðurlands, og unnið sé að næstu skrefum í samráði við teymið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert