Spáð allt að 35 m/s

Það er vonandi búið að kippa trampólínunum inn - mynd …
Það er vonandi búið að kippa trampólínunum inn - mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gular stormviðvaranir eru í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi og má búast við snörpum vindhviðum, allt að 35 metrum á sekúndu. Viðvaranirnar gilda fram á kvöld. 

Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 9 og gildir til klukkan 23. „Austan og norðaustan hvassviðri eða stormur, 18 - 23 m/s í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum, staðbundið yfir 30 m/s. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

Á Suðausturlandi tók viðvörunin gildi klukkan 5 í morgun og gildir til klukkan 21. „Norðaustan hvassviðri eða stormur, 18 - 25 m/s, hvassast við Öræfajökul. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll staðbundið yfir 35 m/s, einkum í Öræfum, sem geta verið hættulegar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.“

Spáð er hvassri norðaustanátt í dag, 13-18 m/s en 18-25 staðbundið sunnan- og suðaustanlands. Rigning austan til en þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi

„Síðan eitthvað hægari vindur á morgun, 10-15 m/s en 5-10 suðaustan- og austanlands. Áfram rigning eða jafnvel slydda um norðanvert landið en bjart með köflum sunnan heiða,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðaustan 13-18, en 18-25 í vindstrengjum suðaustanlands og um landið norðvestanvert. Rigning, einkum austanlands en þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi.
Norðaustan 10-15 á morgun en 5-10 suðaustan- og austanlands. Rigning eða slydda um landið norðanvert en bjartviðri sunnan til. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst.

Á sunnudag:

Norðaustan 10-15 m/s en 5-10 suðaustan- og austanlands. Rigning eða slydda um landið norðanvert en bjartviðri sunnan til. Hiti 1 til 7 stig.

Á mánudag:
Norðan 5-13 m/s og dálítil slydda eða rigning á Norður- og Austurlandi en yfirleitt bjart sunnan heiða. Hiti 0 til 6 stig.

Á þriðjudag:
Norðaustan 5-13 m/s og lítilsháttar úrkoma á Norður- og Austurlandi en austan 13-20, skýjað og dálítil rigning sunnanlands. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Ákveðnar austan- og norðaustanáttir, slydda eða rigning á Norður- og Austurlandi en úrkomuminna suðvestan til. Hægt hlýnandi.

Á föstudag:
Útlit fyrir minnkandi austlægar áttir og rigningu um sunnan- og austanvert landið, en annars skýjað og úrkomulítið.

mbl.is